
Fjölmiðlar virðast vera staðráðnir í því að breyta upphafi forsetakosninga í heldur leiðinlegan samkvæmisleik – sem gæti jafnvel farið að taka á sig mynd skrípaleiks.
Það er látlaust verið að nefna til sögunnar alls kyns fólk sem gæti hugsanlega komið til greina sem forsetaefni, það er hringt í þetta fólk, það útilokar ekki framboð – og þá er því slegið upp að viðkomandi sé bara nokkuð heitur.
Vísir gerir könnun þar sem eru sett einhver nöfn á blað og fólk látið kjósa um þau. Þarna eru til dæmis menn eins og Davíð Oddsson og Jón Baldvin sem – með fullri virðingu – koma ekki til greina. Og svo annað fólk sem þykir dálítið forsetalegt – kannski af því það gæti komið vel fyrir í veislu.
Með þessu áframhaldi verða allir komnir með upp í kok af þessu eftir fáar vikur.
Það er betra að leyfa málunum að þróast – og láta þá sem telja sig eiga eitthvað erindi í þetta koma fram af sjálfsdáðum. Enn er jú hálft ár til kosninga. Það er nær að spyrja spurninga um hvernig þetta embætti skuli eiginlega vera – hvert sé hlutverk forseta á þessum frekar erfiðu tímum.
Ég bendi á viðtal við Stefán Jón Hafstein sem verður sýnt í Silfri Egils á sunnudaginn. Þar ræðum við meðal annars forsetaembættið og tilgang þess.