
Norðmenn eru í svipaðri stöðu og við varðandi EES samstarfið.
Þeir eru þó allmiklu fjölmennari þjóð og geta stundað miklu meiri lobbýisma í Brussel. Þannig geta þeir reynt að hafa áhrif á mál er falla undir EES samningin og varða norska hagsmuni.
Ný skýrsla sem norska ríkisstjórnin hefur látið gera sýnir að Norðmenn hafa á síðustu 18 árum tekið við 8000 tilskipunum frá Brussel sem má segja að varði þá miklu. Norðmenn hafa litlu ráðið um innihald þeirra.
Það má gera því skóna að staða Íslands sé svipuð. Við erum reyndar í þeirri stöðu að þetta hefur aldrei verið kannað með óyggjandi hætti – í landi þar sem er siður að fást helst ekki við staðreyndir þykir miklu betra að geta rifist fram og aftur um þetta.
Tveir stjórnarflokkanna í Noregi, Sósíalíski þjóðarflokkurinn og MIðflokkurinn, eru óánægðir með EES-samninginn, innan raða þeirra er hreyfing fyrir því að segja Noreg úr EES.
Ísland fór inn í EES á sínum tíma án þess að færi fram þjóðaratkvæðagreiðsla um málið. Eftir á að hyggja var það rangt. Í samningnum felst slíkt fullveldisafsal að þjóðin hefði þurft að eiga síðasta orðið um hann. Fyrst ríkisstjórnin efndi ekki til slíkrar atkvæðagreiðslu hefði forseti líklega átt að neita að skrifa undir samninginn. Það hefur jafnvel verið spurt hvort EES samningurinn sé brot á stjórnarskrá Íslands.
Líklega verður norska skýrslan lesin í tætlur hér á Íslandi. Hún mun vekja upp ýmsar spurningar – um gildi EES samningsins, hvernig hann rímar við fullveldi þjóðarinnar, um löggjöfina sem við tökum möglunarlaust við frá Brussel – og erum skuldbundin til að taka upp – og hvort mikið af rökunum sem eru notuð gegn ESB aðild eigi ekki líka við um EES.