
Eitt af því sem er sérstakt við Ísland er að við eigum mjög fábreytta matarmenningu. Þjóðin hokraði hér við þröngan kost og afar fábrotið mataræði.
Sama og allt sem hefur bæst við íslenska eldhúsið síðan þá er komið frá útlöndum.
Við tókum yfir danska eldhúsið nánast í heilu lagi, sósurnar, brauðmetið, drykkjarvörurnar, fyrir utan kók sem varð vinsælla á Íslandi en nokkurs staðar í Evrópu.
Danski maturinn varð allsráðandi þar til Íslendingar fóru að kynnast Miðjarðarhafsmat upp úr 1975. Þá fór að sjást hér pasta, pizzur, ólífuolía og úrval grænmetis fór að verða ögn fjölbreyttara.
Svo fara Asíubúar að flytja til landsins og við tökum upp matargerð þeirra í stórum stíl. Kínverskt, tælenskt, japanskt.
Íslendingar borðuðu lítið af fiskinum sem var hér í sjónum – það þurfti útlendinga til að kenna okkur það og það var líka undir áhrifum frá útlöndum að við lærðum að matreiða hann. Það er til dæmis ekki til nein sérstök þjóðleg uppskrift að fiskisúpu.
Nýja-norræna eldhúsið – sem við teljum okkur eiga nokkurn hlut í og einkennir nokkra veitingastaði hér – er aðallega upprunnið í ríkjum Skandinavíu. Hér eru ágætir staðir sem eru fulltrúar þessa skóla í matargerð.
Við eigum okkar þorramat, en það er siður sem var í raun fundinn upp af sniðugum veitingamanni fyrir svona fimmtíu árum. Þetta er í raun ekki fastur partur af eldhúsi okkar, heldur skrítinn og skemmtilegur siður sem hafður í hávegum einu sinni á ári.
Nú er að verða sú þróun í matvælaframleiðslu að menn gera miklu meiri kröfur til hráefna. Hráefni er lykilatriðið. Að það sé ferskt og að fólk viti hvað er látið í matinn.
Út um allt í Evrópu og Bandaríkjunum hafa sprottið upp búðir sem selja lífræn matvæli. Kröfurnar til þess sem þar er selt eru mjög strangar. Verðið er hærra. Samt eru þessar búðir alltaf fullar af fólki. Bændamarkaðir hafa sprottið upp víða í borgum og staðir sem selja beint frá litlum framleiðendum. Í stórverslunum eru þær deildir vaxandi sem selja lífræn matvæli. Sérhæfðar slátrarabúðir eru aftur orðnar vinsælar – þar sem kjötið er sérvalið og menn kunna að skera það niður á alla kanta.
Við Íslendingar höfum aldrei verið neinir frumkvöðar í matarmenningu, hvernig gæti það verið í harðbýlu landi þar sem skilyrði til ræktunar eru erfið. Þessi þróun, líkt og önnur, berst frekar seint hingað. Enn sem komið er sækjum við matvöruna aðallega í stórmarkaði þar sem lítið er spáð í því hver uppruni vörunnar sé, hvernig hún hafi borist í verslunina, úr hverju hún sé, hvaða aukaefni séu í henni.
Það er svosem hægt að leggja þetta þannig upp að það standi yfir barátta milli íslensks matvælaiðnaðar og óþjóðlegra afla.
Sagan sýnir okkur að yfirleitt hafa alþjóðlegir straumar í matreiðslu flætt hér yfir þrátt fyrir alls konar fyrirstöðu – þjóðrembuviðhorf, einokun og innflutningshöft – og að það hefur yfirleitt verið til bóta, enda er framlag Íslendinga til matarmenningar í heiminum afar lítið.