
Ef það er eitt sem ég hef sérstakt ofnæmi fyrir þá er það kóngafólk og allt sem tengist því.
Ég er semsagt lýðveldissinni – repúblikani.
Það að staða þjóðhöfðingja gangi í erfðir eru leifar frá gamalli tíð – skilin voru í frönsku byltingunni og þegar stjórnarskrá Bandaríkjanna var samin.
Það var þá að punktur var settur aftan við forréttindi aðalsfólks.
Vissulega tók langan tíma að vinda ofan af þeim – og sums staðar er það ekki búið. Eiginlega er það merkilegt að það skuli vera í lýðræðissamfélögum Norðurlandanna að konungdæmi hafa þraukað.
Kóngar og drottningar eru auðvitað ekkert verri eða betri en annað fólk – þótt þessi þjóðfélagsstaða hljóti að vera mannskemmandi á sinn hátt – en hugmyndin á bak við þetta stjórnarform er skelfileg – að æðsta virðingarstaða í samfélagi gangi í erfðir.
Nú er verið að halda upp á fjörutíu ára stjórnarafmæli Margrétar Danadrottningar. Hún er aðallega fræg fyrir að reykja mikið og fyrir að vera heldur lélegur málari – eins ótrúlegt og það kann að virðast er ætt hennar moldrík, þetta fólk hefur fengið að halda eignum sem það sölsaði til sín meðan meiri völlur var á konungdæminu.
Eins er það í Bretlandi – drottningin er ein auðugasta manneskja í landinu og börn hennar erfa allt klabbið. Líklega er ekki hægt að hugsa sér fólk sem veitir minni innblástur en þá fjölskyldu.
Í Svíþjóð hafa þeir hins vegar þrengt að kónginum. Flestar eigur konungdæmisins þar hafa gengið til ríkisins. Það hefur svo komið í ljós í seinni tíð að konungurinn er hálfgerður pervert – en það er samt ekki reynst nóg til að setja hann af og leggja niður þetta fáránlega embætti.