
Wowair hefur hrist rækilega upp í íslenska ferðamarkaðnum með ódýrum flugferðum. Ég hef tvívegis flogið með Wow í sumar, til og frá Berlín – það var ágætt í bæði skiptin, flugvélarnar voru á réttum tíma, vélarnar eru í góðu lagi og viðmót áhafnarinnar er gott.
Wow dregur talsvert saman seglin í vetur – maður hlýtur að spyrja hvort íslenski markaðurinn ber allt þetta framboð á flugi.
En það er gott meðan það er. Það er frábært að geta ferðast til Evrópu fyrir 30 þúsund krónur báðar leiðir – eins og Wow hefur stuðlað að.
Maður hlýtur að vona að Wow eigi framtíð fyrir sér – Iceland Express hefur starfað nokkuð lengi en það var alveg hætt að veita Icelandair raunverulega samkeppni.
Og talandi um Berlín – maður skilur ekki af hverju Íslendingar fara ekki meira þangað. Hún er skemmtilegri, opnari og frjálslegri borg en bæði London og Kaupmannahöfn.
Og þess utan er Berlín miklu ódýrari.