
Ég hef skrifað á internetið síðan í febrúar 2000. Þetta eru meira en tólf ár.
Ég hef skrifað pistla um allt milli himins og jarðar – hvaðeina sem mér dettur í hug eða er að fást við þá stundina.
Ég held að minnihluti pistlanna sem ég hef birt fjalli um íslenska pólitík.
Ég hef skrifað um bókmenntir, tónlist, ferðalög, íþróttir, mat, neysluvenjur, arkitektúr, skipulagsmál, alþjóðamál, kvikmyndir, borgir, mannlíf.
Ég gæti ekki hugsað mér að hafa þetta öðruvísi. Mér finnst merkilegt hvað mikið af bloggi einkennist af þráhyggju, fólki sem er alltaf að skrifa um sama efnið – jafnvel fólki sem er alltaf að skrifa sama pistilinn um sama efnið, kannski með örlitlum frávikum.
En þetta er sjálfsagt hugsjónafólk sem liggur mikið á hjarta varðandi eitt og aðeins eitt málefni og þarf ekki að leita víðar.