
Það er merkilegt hvað menn hafa mikla tilhneigingu til að rjúka upp af minnsta tilefni á Íslandi – það þarf ekki meira en einhvern orðróm.
Nú segir sveitarstjórnarmaður á Langanesi – sem er afskekktasti staður á Íslandi – að sig langi í höfn sem verði eins og Súez.
Það sér hvert mannsbarn að þetta eru órar í manninum – og það breytir engu þótt einhver plön hafi verið dregin upp vegna þessa í heimahögum mannsins.
Þótt einhvern tíma opnist siglingaleiðir um Norður-Íshafið verður Langanes ekki Súez. Það þarf ekki annað en að skoða landakort til að sjá að þetta eru órar.
Inni á Grímsstöðum á Fjöllum er kínverski auðmaðurinn Nubo með plön um að byggja hótel og ferðaþjónustu. Hann er reyndar kominn í algjöra ónáð eftir að hann sagði að Íslendingar væru vitleysingar. Hann hefur auðvitað fullan rétt á þeirri skoðun. Það er ekkert sem segir að þeir sem fjárfesta á Íslandi þurfi að vera aðdáendur lands og þjóðar.
Plön Nubos virðast harla skrítin – því er ekki að neita. En nú er semsagt kominn upp sá kvittur að þau tengist Súezævintýrinu á Langanesi og þá er fjöðrin allt í einu orðin að hæsnakofa og meira að segja farið að tala um Steingrím J. sem skúrkinn í málinu.
Eða eins og einn vandaðasti bloggari landsins skrifar:
„Böndin berast að Steingrími J. Sigfússyni eins og svo oft áður þegar mál komast á grá svæði.“