
Í Kiljunni annað kvöld fjöllum við um verkefni hjónanna Sigurjóns Péturssonar og Þóru Hrannar Njálsdóttur. Það birtist bæði á sýningu á Þjóðminjasafninu og í bók sem nefnist Aðventa á fjöllum. Þau hjónin fóru á slóðir Fjalla-Bensa, sem varð söguhetja Gunnars Gunnarssonar í skáldsögunni Aðventu, á Mývatnsöræfum og við Jökulsá.
Kristín Marja Baldursdóttir rithöfundur segir frá uppáhaldsbókum sínum.
Í þáttinn kemur líka ungur höfundur, Sólveig Jónsdóttir sem er að senda frá sér bókina Korter. Hún gerist í Reykjavík og fjallar um líf fjögurra ungra kvenna. Þetta er fyrsta bók Sólveigar.
Kolbrún og Páll Baldvin fjalla um nýja ljóðabók Gyrðis Elíassonar, sem nefnist Hér vex enginn sítrónuviður, ljósmyndabókina Óð eftir Davíð Þorsteinsson og Englasmiðinn eftir Camillu Läckberg.
En Bragi hefur undir höndum röntgenmynd af Hannesi Sigfússyni.

Sæluhúsið á Fjöllum. Ein af myndum Sigurjóns og Þóru Hrannar úr bókinni Aðventa á fjöllum.