
Styrmir Gunnarsson skrifar pistil á vef Evrópuvaktarinnar og veltir fyrir sér áskorunum á Ólaf Ragnar Grímsson um að bjóða sig enn fram til forseta.
Styrmir spyr af hverju Ólafur megi ekki hætta og segir að ekki sé gott að sami maður sitji of lengi í slíku embætti.
Gamli ritstjórinn er reyndar vanur að tukta Ólaf Ragnar, það gerði hann reglulega í leiðurum Morgunblaðsins um árabil. Nú nefnir hann að það gæti orðið erfitt fyrir Ólaf þegar farið er að rifja upp stuðninginn sem hann veitti útrásarvíkingum.
Styrmir vekur einnig máls á nærveru Baldurs Óskarssonar, elsta stuðningsmanns Ólafs Ragnars, á fundi áskorendanna í gær. Hann skrifar:
„Það vekur athygli að í hópi þeirra, sem standa að undirskriftasöfnun er einn gamall og náinn samstarfsmaður Ólafs Ragnars frá fyrri tíð.
Því verður ekki trúað að forsetinn hafi hagað orðum sínum á þann veg, sem hann gerði í áramótaræðu sinni til að kalla á slíka undirskriftarsöfnun.
Sá sem situr á Bessastöðum gæti ekki leyft sér slíkan leikaraskap.“
Annar gamalreyndur blaðamaður fjallaði líka um fund áskorendanna og hlut Baldurs Óskarssonar. Það er Eiríkur Jónsson sem setti saman þessa mynd:
