
Það gæti verið rétt sem Björn Valur sagði í Silfrinu að stefni í mikil pólitísk átök í vikunni.
Nú ætlar Ögmundur Jónasson að greiða atkvæði með því að landsdómsmálið gegn Geir Haarde verði fellt niður.
Það er ekki ólíklegt að fylgismenn hans, Guðfríður Lilja og Jón Bjarnason greiði atkvæði eins og hann.
Innan Samfylkingarinnar er mikill órói – þar eru þingmenn sem líka munu greiða atkvæði með Sjálfstæðisflokknum.
Svo er spurning með Framsókn – það má rifja upp að innan þess flokks eru þingmenn sem greiddu atkvæði með landsdómsákærum á sínum tíma.
Krókur á móti bragði hefur verið að setja fram tillögu um að málinu verði vísað frá – semsagt að sjálf tillaga Sjálfstæðisflokksins komist ekki á dagskrá. Það er eiginlega vandséð að það gangi eftir.
Það eru uppi pælingar um að stjórnin kunni að falla á þessu – þetta er að minnsta kosti enn eitt upphlaupið innan raða hennar, eins og einn stuðningsmaður stjórnarinnar orðaði það þreytulega við mig í gær.