
Ég veit ekki hvort það teljast góðar fréttir að McDonalds sé að opna aftur á Íslandi, nú miklu fleiri staði en áður – hvar annars staðar en á bensínstöðvum N1?
Matarmenning hefur ekki beinlínis risið hátt á þeim bæ.
McDonalds hamborgarakeðjan í Bandaríkjunum er fjarskalega ódýr – mun ódýrari en þegar hún starfaði hér. Mikið af gestunum er fólk sem sem hefur orðið undir í lífinu. Það getur verið býsna sorglegt að koma inn á McDonalds í Bandaríkjunum.
Hér á Íslandi hafa verið starfandi staðir sem selja ansi góða hamborgara, miklu betri en það sem fæst á McDonalds – Hamborgarabúllan og Hamborgarafabrikkan.
Eins er það reyndar með kaffið á Íslandi. Víða í Bandaríkjunum og Bretland er varla hægt að fá annað en Starbucks kaffi. Þessi keðja hefur tekið yfir kaffihúsamarkaðinn svo aðrir komast varla að. En kaffið á Starbucks er ekki sérlega gott og staðirnir einkennilega óvistlegir. Við höfum miklu betri staði hér á Íslandi, Te & kaffi, Kaffitár, Kaffismiðjuna og Kaffifélagið – sem er minn uppáhaldsstaður.
Það má vera að þetta hljómi eins og lókalpatríótismi – en nei, þetta er einfaldlega satt.