
Í fjölmiðlum les maður að Twitter-áskrift í nafni Wendy Deng, eiginkonu Ruperts Murdochs hafi verið svindl.
Samt var á að hafa verið búið að ganga úr skugga um að þetta væri ekta.
Að mínu viti er Twitter varasamt fyrirbæri.
Einhver persóna úti í bæ hefur gert þa að leik sínum að falsa færslur í mínu nafni á Twitter. Það sem verra er – hann hefur fylgst með ferðum mínum og fjölskyldu minnar og sett upplýsingar um þær inn í mínu nafni.
Sjálfur hef ég aldrei skrifað neitt á Twitter.
Mér þykir þetta heldur hvimleitt og hef kvartað tvívegis við Twitter. Þeir segjast ekki vilja gera neitt í þessu. Það finnst mér sérkennilegt.
Einstaklingurinn sem ég náði loks sambandi við hjá Twitter og svarar seint og um síðir heitir ekki einu sinni alvörunafni, heldur kallar sig @BillyPilgrim727 – upp úr skáldsögu eftir Vonnegut.
Undir stendur Twitter Trust and Safety.
Eftir því sem ég sé best hafa aðrir samskiptavefir eins og Facebook og Google + harðari reglur um svonalagað.