
Það gæti orðið ótrúlegt fjör í framboðsmálum á Íslandi næstu sextán mánuðina eða svo.
Fullt af forsetaframbjóðendum – og fullt af framboðum fyrir þingkosningar sem eiga að fara fram snemma vors 2013, en gætu auðvitað orðið fyrr.
Nú erum við þegar komin með fjögur ný framboð, Lilju Mós, Guðmund Steingríms og Heiðu, Guðmund Franklín og Hægri græna – og svo er í pípunum sameiginlegt framboð Borgarhreyfingarinnar, Hreyfingarinnar og Frjálslynda flokksins.
Kannski það sé hið besta mál fyrir gamla fjórflokkinn að fá bara nógu mörg smáframboð, fremur en svona eitt til tvö verulega öflug framboð.
Það er þó aldrei að vita. Fjórflokkurinn er verulega laskaður – eins og sjá má ef rýnt er í skoðanakannanir.
Jónas Kristjánsson gerir það í nýrri bloggfærslu og segir að raunverulegt fylgi Sjálfstæðisflokks sé 22 prósent, Samfylkingin sé með 12 prósent, Framsókn með 8 prósent og Vinstri græn með 8 prósent.
Langstærsti hópur kjósenda eru hinir óákveðnu, þeir sem kæra sig ekki um að kjósa neinn af fjórflokkunum.