
Það verður að teljast líklegt að Ólafur Ragnar Grímsson skýri frá því í áramótaávarpi sínu hvort hann ætlar að sækjast eftir því að sitja áfram sem forseti.
Annað væri eiginlega ókurteisi, það er ekki einkamál Ólafs hvort hann vill vera áfram í embættinu, enda verður að teljast líklegt að einhverjir séu að hugsa sér til hreyfings varðandi framboð.
Ég hallast frekar að því að hann bjóði sig ekki fram – nú ef ég hef rangt fyrir mér þá er það bara svo.
En Ólafur er alls ekki viss með að sigra í forsetakosningum. Stuðningurinn við hann í skoðanakönnunum er ekki afgerandi. Sterkur frambjóðandi gæti sigrað hann. Ólafur myndi ekki vilja vera fyrsti sitjandi forsetinn sem tapar kosningum.
Þetta held ég að sé aðalatriðið, því líklegt er að Ólafur geti vel hugsað sér að sitja áfram. Hann er búinn að vera áhrifamaður í íslensku samfélagi síðan fyrir 1970 og er ekki þesslegur að hann vilji setjast í helgan stein.
Honum tókst að ná miklum vinsældum vegna Icesavemálsins – eftir að vera orðinn nánast útskúfaður. Það var ótrúleg vending í byrjun árs 2010 þegar forsetinn var dreginn sundur og saman í háði í áramótaskaupi, en synjaði svo Icesave fáum dögum síðar – og var þá nánast eins og þjóðhetja hjá vissum hópi fólks.
En ákvörðun ESA um að höfða mál vegna Icesave setur málið í uppnám – línurnar í Icesave verða óskýrar og nú er ómögulegt að segja hvernig þetta endar.
Hins vegar hefur Ólafur Ragnar breytt forsetaembættinu með þeim hætti að ekki verður aftur snúið. Forsetinn mun hafa meiri völd og áhrif í framtíðinni. Best væri auðvitað að menn drifu sig í að koma þessu inn í stjórnarskrá með skýrum hætti, en það er óhugsandi að embættið fari aftur í gamla farið og forsetinn verði upphafinn veislustjóri eða virðuleg táknmynd. Kröfurnar eru í raun meiri núna.