Rithöfundurinn Alan Sillitoe, sem er látinn á níræðisaldri, varð frægur fyrir harðsoðnar bækur sem fjölluðu um líf ungs fólks í breskri verkalýðsstétt eftirstríðsáranna. Sjálfur var hann af verkamannafjölskyldu frá Nottingham, datt út úr skóla á unglingsaldri. Söguhetjur hans eru ungir karlmenn, sem spretta upp úr svipuðu umhverfi og til dæmis fjórmenningarnir í Bítlunum – það er tími þrenginga eftir stríðið, skömmtunar og nokkurs tepruskapar í siðferðisefnum sem Stillitoe og fleiri gerðu uppreisn gegn.
Hann var flokkaður með hópi rithöfunda sem voru kallaðir „reiðu ungu mennirnir“ og komu fram í lok sjötta áratugarins. Sá frægasti og dæmigerðasti var leikritaskáldið John Osborne sem eins og Sillitoe var úr lágstétt, hafði dottið út úr skóla, en náð að mennta sig af eigin rammleik.
Frægustu verkin skrifaði Sillitoe í kringum 1960. Hetja fyrstu skáldsögu hans, Saturday Night and Sunday Morning, fer út á næturlífið og á í tilvistarvanda – þessi persóna, Arthur Seaton, verður í ráðleysi sínu einhvers konar táknmynd ungs fólks á þessum tíma, ekki síst eftir að Karel Reisz gerði fræga kvikmynd eftir sögunni með Albert Finney í aðalhlutverki.
Myndin gerði Finney að stórstjörnu. Síðar kom bók með ógleymanlegan titil, The Loneliness of the Long Distance Runner. Hún fjallar um unglingspilt sem lendir á upptökuheimili. Pilturinn hefur mikla hæfileika til langhlaupa, en þegar hann getur unnið mikinn sigur á hlaupabrautinni kastar hann honum viljandi frá sér, af því hann vill ekki spila með kerfinu.
Eftir þessari sögu var líka gerð fræg kvikmynd í miklum raunsæisstíl, það var Tony Richardson sem leikstýrði, en ungur Tom Courtney lék aðahlutverkið og gat sér frægð fyrir.
[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=OHsOSySZOyo]