Leyndarhyggja í stjórnmálum er slæm, en því miður er hún alltof útbreidd.
Framsóknarflokkurinn ályktar í dag að leyndarhyggja hafi náð áður óþekktum hæðum í tíð núverandi ríkisstjórnar.
Það er er ekki rétt. Leynipukrið er búið að standa miklu lengur yfir. Það var þróað sem stjórnunaraðferð á tíma Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar. Þeir ákváðu upp á sitt eindæmi að etja Íslendingum út í stríð í fjarlægri heimsálfu, þeir gáfu banka vildarvinum, deildu út embættum til flokksmanna – eftir tíma þeirra var Alþingi varla nema afgreiðslustofnun þar sem stjórnarandstæðingar gátu fengið útrás í ræðuhöldum en stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar stunduðu sjálfvirkar handauppréttingar.
Sumir héldu að þetta yrði öðruvísi í tíð Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar, en þau fóru í sama farið. Stærsta leyndarmálið í stjórnunartíð þeirra var að íslenska efnahagskerfið var í raun bráðfeigt. Um þá dæmalausu stjórnarhætti má lesa í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.
Og enn héldu menn að breytingar yrðu með Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. En það var líka óskhyggja. Þessi stjórnunaraðferð er orðin inngróinn í kerfið, eins og fyrirrennarar þeirra eru þau með sína innri ríkisstjórn þar sem þau sitja með fámennum hópi misjafnlega hæfileikaríkra ráðgjafa. Fæstir ættu þó möguleika á góðri vinnu ef ekki kæmu til flokkstengslin.
En kannski er heldur ekki von á öðru þegar ríkisstjórnin alltof fjölmenn; full af fólki sem fær að vera þar vegna dyggrar þjónustu við flokk og foringja – en það eru þeir verðleikar sem eru metnir mest í stjórnmálunum. Það er merkilegt að þegar vinstri flokkar komust loks til valda á Íslandi að þeir skyldu ekki hafa kraft, kjark eða hugmyndaflug til að reyna að breyta þessu.