Þórlindur Kjartansson, fyrrverandi formaður SUS, skrifar grein sem hann nefnir Aðförina að Þorgerði Katrínu.
Einn punktur vekur sérstaklega athygli. Það sem Þórlindur segir um rætnar kjaftasögur sem hefur verið dreift um Þorgerði Katrínu.
„Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði af sér varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum um helgina. Afsögn hennar kom í kjölfar mikils þrýstings sem meðal annars birtist í formi rætinna skrifa á netinu, fjölda símtala til samherja hennar í flokknum og mótmælum nokkur kvöld fyrir utan heimili hennar. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem mikið moldviðri geysar í kringum Þorgerði Katrínu. Í mörg ár hefur hún mátt þola að andstæðingar hennar hafi kynt undir tortryggni í hennar garð með ýmsum ráðum. Einkum hefur hún orðið fyrir barðinu á illskeyttum sögusögnum sem skáldaðar hafa verið upp til þess að draga úr trúverðugleika hennar en fyrst og fremst til þess að gera henni lífið erfiðara. Rætnar kjaftasögur virðast vera sérstakt uppáhaldsvopn margra sem tekið hafa þátt í stjórnmálum á umliðnum áratugum. Á þessu hefur Þorgerður Katrín fengið að kenna í mörg ár, enda ekki látið sér duga að vera sæt og prúð stúlka heldur staðið á sannfæringu sinni jafnvel þegar það hefur aflað henni óvinsælda. Það eru kannski svona hlutir sem Styrmir Gunnarsson átti við þegar hann sagði Rannsóknarnefnd Alþingis að þetta sé ógeðslegt samfélag sem við búum í.
Fram að þessu virðist Þorgerður Katrín hafa talið sig eiga nægilega marga og trausta stuðningsmenn til þess að halda ótrauð áfram. En dropinn holar steininn. Eftir margra ára álag virðist stuðningsnetið í kringum Þorgerði hafa brostið og hún sagði af sér embættinu, sem hún fékk yfirburðakosningu til fyrir tæpu ári. Hún tók sér tímabundið leyfi frá þingstörfum. Hvenær því leyfi lýkur er erfitt að segja til um. Ólíkt tímabundnum leyfum, Illuga Gunnarssonar og Björgvins G. Sigurðssonar, eru engin mál sem tengjast Þorgerði Katrínu óuppgerð. Ekkert nýtt mun koma fram sem mun sakfella hana eða hreinsa orðspor hennar. Hinir tveir þurfa einfaldlega að bíða eftir ákveðinni niðurstöðu og halda þá áfram eða hætta. “
Spurningin er: Hverjir hafa borið út róginn um Þorgerði Katrínu allan þennan tíma? Hverjir skálduðu upp hinar illskeyttu sögusagnir?
Ég er eiginlega alveg viss um að þarna á Þórlindur ekki við fólk úr öðrum flokkum, heldur þvert á móti samflokksmenn Þorgerðar úr Sjálfstæðisflokknum.