Það er að ýmsu að hyggja á tölvuöld.
Ef maður bloggar verður maður helst að hugsa sig um tvisvar áður en maður birtir eitthvað. Því það sem er komið á netið verður ekki aftur tekið.
Það má alls ekki blogga undir áhrifum áfengis.
Maður skyldi passa hvað maður sendir í tölvupósti. Maður getur aldrei verið viss hvað viðtakandinn gerir við tölvupóstinn eða hvort hann kemst í annarra hendur.
Tölvupóst á maður ekki að senda þegar maður er reiður. Betra er að fara frá tölvunni og koma aftur að henni seinna. Sumu er best að láta alveg ósvarað.
Svipað gildir um Facebook. Maður þarf að passa hvað maður setur þangað inn.
Sérstaklega ef maður á 1700 vini.
Þá er varla hægt að segja að rabbið á Facebook sé eins og huggulegt samtal við vini inni í eldhúsi.
1700 manns fara langleiðina með að fylla tvö Háskólabíó.
Og ætli það séu ekki álíka margir lesendur og voru að Alþýðublaðinu þegar ég vann þar í eina tíð. Og taldist það þó vera fjölmiðill.