Látinn er Juan Antonio Samaranch sem lengi var forseti Alþjóða ólympíunefndarinnar – sem hefur verið talinn einhver spilltasti klúbbur á jarðríki.
Samaranch var sérstæður maður, hann var frá Katalóníu en gerðist mjög hallur undir einræðisherrann Franco og átti honum að þakka frama sinn, þótt almennt tortryggði Franco Katalóníumenn.. Svo seint sem 1974 var Samaranch enn að heilsa með fasistakveðju eins og sjá má á myndinni hér að neðan.
Eftir nokkuð misheppnaða formannstíð Killanins lávarðar tók Samaranch við formennsku í ólympíunefndinni árið 1980. Á tíma Killanins voru haldnir leikarnir í Montreal sem þóttu misheppnaðir og í Moskvu þar sem fjöldi þjóða sem tók ekki þátt í mótmælaskyni við innrásina í Afganistan.
Því verður ekki á móti mælt að á tíma Samaranchs fóru leikarnir að blómstra, á sinn hátt. En það var algjörlega á kostnað ólympíuhugsjónarinnar svokallaðrar. Allt sem tengdist leikunum var nú til sölu. Lógó stórfyrirtækja voru hvarvetna sýnileg. Áhugamennska í íþróttum sem hafði átti að vera í fyrirrúmi vék fyrir harðvíraðri atvinnumennsku og peningagræðgi. Leikarnir urðu kapphlaup um að sýnast sem stærstur og bestur; hámarki náði gígantisminn í Peking árið 2008 þegar heilum borgarhverfum var rutt burt fyrir íþróttamannvirki.
En Samaranch er ekki eini vafasami náunginn sem hefur verðið formaður Alþjóða ólympíunefndarinnar. Annar er bandaríski byggingaverktakinn Avery Brundage. Brundage ríkti sem formaður ólympíunefndarinnar frá 1952 fram á áttunda áratuginn – meðal annars í gegnum fræg fjöldamorð á stúdentum í Mexíkó tíu dögum fyrir leikana 1968 – en áður hafði hann verið formaður bandarísku ólympíunefndarinnar.
Hann er þó frægastur fyrir afskipti sín af leikunum í Berlín 1936. Fram á gamals aldur hélt Brundage því fram að það hefðu verið bestu ólympíuleikarnir. Hann þverskallaðist við háværum kröfum um að leikarnir yrðu ekki haldnir í Hitlers–Þýskalandi eða að þeir yrðu sniðgengnir; þá var þegar orðið ljóst að nasistar ráku viðurstyggilega kynþáttastefnu. Brundage hélt áfram að vera vinur nasista eftir leikana og fékk byggingafyrirtæki hans meðal annars samning um að reisa nýtt þýskt sendiráð í Washington rétt í stríðsbyrjun.
Brundage rak líka bandarísku íþróttamennina Tommy Smith og John Carlos af leikunum 1968 en þeir höfðu mótmælt kynþáttamisrétti með því að rétta upp kreppta hnefa með svörtum hanska á verðlaunapalli. Til þess er tekið að Brundage hafi ekki amast við nasistakveðjum á leikunum þrjátíu árum áður.
Þess má svo geta að Avery Brundage kemur við sögu í spennusögu Philips Kerr If the Dead Rise Not sem kom út í fyrra. Hann fær ekki góða umsögn í bókinni.
Samaranch, um miðja mynd, heilsar með fasistakveðju árið 1974.