Það er dálítið vandlifað á Íslandi núna.
Hér eru unnvörpum fyrirtæki sem maður vill alls ekki versla við – af ýmsum ástæðum.
Helst vildi ég hvergi kaupa matvöru nema í Kjötborg og Melabúðinni. Fjarðarkaup eru of langt í burtu.
Og svo er það bensínið. Maður kaupir hjá einu olíufélagi, svo breytist eignarhaldið kannski snögglega, og þá langar mann það ekki lengur.
Eða símafyrirtækin? Þar hafa hvimleiðustu útrásarvíkingarnir raðað sér á garðann.
Það skiptir kannski ekki máli í hinu stóra samhengi hvar maður verslar. Hér í eina tíð var til fólk sem lagði sig í líma við að kaupa til dæmis aldrei neitt hjá Sambandinu. Og svo voru aðrir sem forðuðust Kolkrabbafyrirtækin eins og pestina.
Og er það ekki þetta sem frjáls markaður gengur út á – að greiða atkvæði með buddunni?