Þetta er fjölskyldan sem vinkona mín Gozde saknar á Haiti. Gozde kynntist ég á Íslandi fyrir næstum fimmtán árum, hún er tyrknesk, lærði meðal annars í París, en hefur starfað við ýmislegt hjálparstarf í þróunarlöndum, aðallega við að reyna að efla menntun kvenna.
Gozde var á leið til Haiti eftir tíu daga.
Móðirin, Emily Sanson frá Nýja-Sjálandi er á lífi og hún virðist vera búin að finna yngstu dótturina sem heitir Alyahna og verður bráðum tveggja ára.
Stelpan er marin og skorin, bólgin í andliti og hugsanlega fótbrotin. Næst er að reyna að koma henni burt, til Miami eða Dómíníska lýðveldisins.
Emily hefur tekist að koma skilaboðum í gegnum Blackberry síma sem hún hefur fengið lánaðan. Fréttirnar eru óljósar en það virðist vera að hinar tvær stúlkurnar, Zenzie 4 ára og Kofie-Jade 5 ára séu lokaðar inni í rústum og líka eiginmaður Emily, Emmanuel Rejouis – að mér skilst á Keriba hótelinu í Port au Prince.
Síðustu fréttir herma að Emmanuel sé dáinn en litla stúlkan hafi fundist undir líki hans.
Nú veit maður ekki hvernig aðstæður í Port au Prince eru en ég kom boðum til íslensku hjálparsveitarinnar um vanda þessarar fjölskyldu.