Harry Bretaprins og hertogaynjan Meghan Markle íhuga nú að flytja til Kanada og setjast þar að. Þetta fullyrðir heimildarmaður tímaritsins Us Weekly.
„Meghan og Harry hafa íhugað að flytja til Kanada þar sem það er hluti af Breska samveldinu,“ segir heimildarmaðurinn.
Meghan myndi una sér vel í Kanada og mætti nánast ganga svo langt að segja að hún myndi snúa aftur á heimaslóðir, en hún bjó í Toronto um árabil þegar hún lék í þáttunum Suits, sem eru teknir upp í borginni. Heimildarmaður Us Weekly segir að Meghan og Harry líti svo á að þau myndu setjast að í Kanada til frambúðar ef þau ákveða að flytja.
Harry og Meghan eiga saman soninn Archie, sem er fimm mánaða gamall, og búa á Frogmore-sveitasetrinu í Windsor á Englandi. Heimildarmaðurinn segir að hjónunum líði vel í sveitasælunni, mun betur en ef þau myndu búa í London. Meghan er sérstaklega ánægð í Windsor.
„Hún elskar að búa í Windsor,“ segir heimildarmaðurinn. „Það er auðveldara að fá vini í heimsókn og hún fær ekki innlokunarkennd líkt og í Kensington-höll.“