
Wolves skoðar nú þann möguleika að fá til sín Wilfried Zaha áður en félagaskiptaglugganum lokar ef marka má ensku götublöðin.
Zaha er á mála hjá Galatasaray, en hann fór þangað í fyrra eftir að hafa verið aðalmaðurinn hjá Crystal Palace í áraraðir.
Svo virðist sem kantmaðurinn sé ekki inni í myndinni hjá tyrknesku meisturunum og hefur hann mikið verið orðaður við ensku úrvalsdeildina undanfarið. Þar á meðal eru Leicester, Everton og hans fyrrum félag Palace.
Nú er hins vegar sagt að Wolves gæti reynt að fá hann til að fylla skarð Pedro Neto, sem gekk í raðir Chelsea nýlega.
Ef skiptin ganga eftir myndi Zaha líklega koma á láni til Wolves til að byrja með, með kaupmöguleika eftir eitt tímabil.