fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Zika-veiran – Það sem þú þarft að vita

WHO lýsir yfir neyðarástandi – Tengd fæðingargöllum og taugasjúkdómum

Ritstjórn DV
Föstudaginn 5. febrúar 2016 20:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, hefur lýst yfir neyðarástandi vegna útbreiðslu Zika-veirunnar. Stofnunin sendi frá sér tilkynningu þann 1. febrúar, vegna neyðarfundar sem haldinn var um aukningu á tíðni microcephaly og Guillain-Barré-sjúkdóms, en aukningin er talin tengjast útbreiðslu Zika-veirunnar. Í tilkynningunni kemur fram að sérfræðingar hafi sterkan grun að orsakasamband sé milli Zika-veirusýkingar á meðgöngu og aukinnar tíðni fæðingargalla og taugasjúkdóma – það samband hafi þó enn ekki verið staðfest með rannsóknum. Telur stofnunin brýna ástæðu til að samhæfa alþjóðleg viðbrögð við ástandinu.

Skortur á bóluefni og áreiðanlegum greiningarprófum, ásamt skorti á fjöldaónæmi í löndum þar sem veiran hefur nýlega náð útbreiðslu, er einnig áhyggjuefni.

Aukin tíðni fæðinga barna með heilasmæð (microcephaly) og aðra taugasjúkdóma í Brasilíu, ásamt svipuðum faraldri í Frönsku Pólýnesíu árið 2014, og útbreiðsla veirunnar víðar um heiminn skoðast nú sem neyðarástand sem varðar lýðheilsu.

Samkvæmt tilkynningu WHO verður nú lagt kapp á að finna bólusetningu til að hægt verði að vernda þá sem eru í mestri hættu, sérstaklega konur á meðgöngu og á barneignaraldri.
Bandarísk smitsjúkdómayfirvöld hafa nú staðfest smit á Zika-veirunni af völdum kynmaka.

Um er að ræða sjúkling í Dallas, Texas, sem hafði kynmök við einstakling sem var nýkominn frá Venesúela og hafði sýkst þar af veirunni. Þetta er fyrsta staðfesta tilfellið í Bandaríkjunum hjá einstaklingi sem hefur ekki sjálfur ferðast til svæðanna sem áður höfðu verið til umfjöllunar. Áður var talið að veiran smitaðist ekki milli manna, heldur aðeins með moskítóflugum af gerðinni Aedes aegypti.

Að svo stöddu hafa ferðalög til þeirra landa þar sem Zika-veiran hefur komið upp ekki verið takmörkuð, en þunguðum konum er sterklega ráðið frá því að ferðast til svæðanna.

Höfuðsmæð – Microcephaly

Fæðingargalli
Höfuðsmæð - Microcephaly

Einkennist af því að höfuðið er að minnsta kosti tveimur staðalfrávikum neðar en eðlilegt er.

Ýmsar ástæður geta legið að baki fæðingargallanum. Til að mynda sýkingar móður á meðgöngu.

Heili barna sem eru með höfuðsmæð er ekki eðlilega þroskaður.

Börn með höfuðsmæð hafa skertar lífslíkur.

Hjá nýburum sjást truflanir í starfsemi taugakerfis og krampar eru algengir.

Þroskaskerðing er algeng og sömuleiðis hreyfitruflanir.

Mörg barnanna þurfa ævilanga umönnun og aðstoð.

Zika-veiran

Helstu atriði
Zika-veiran

Smitast með moskítóflugum

Var fyrst uppgötvuð 1947 í Zika-skóginum í Afríkuríkinu Úganda.

Veikindi af völdum veirunnar eru yfirleitt væg og dauðsföll mjög sjaldgæf, aðeins fimm eru skráð í heiminum hingað til.

Einkenni sýkingar: vægur hiti, tárubólga (rauð og aum augu), höfuðverkur, liðverkir og útbrot.

Aðaláhyggjuefni eru áhrif á fóstur í móðurkviði og tengsl við að börn fæðist með smátt höfuð og óþroskaðan heila – microcephaly.

Sjaldgæfur taugasjúkdómur, Guillain-Barre-heilkenni, sem getur valdið tímabundinni lömun, hefur einnig verið tengdur við smit.

Bólusetning við veirunni eða lyfjameðferð fyrirfinnst ekki. Þeim sem sýkjast er ráðlögð hvíld og að drekka nógan vökva.

Sjúkdómurinn er ævilangt verkefni

Elísabet greindist með Guillian-Barré
Elísabet Reynisdóttir

Elísabet Reynisdóttir

Guillian-Barré er taugasjúkdómur sem einkennist af því að líkaminn ræðst á og skemmir mýelínslíður í úttaugum, en mýelínslíður liggur utan um taugarnar og er nauðsynlegt til að eðlileg taugaboð geti borist um líkamann. Í kjölfarið geta sjúklingar lamast og orðið máttlausir. Um er að ræða sjálfsónæmissjúkdóm, en ýmislegt getur leyst hann úr læðingi og ástæðan ekki að fullu kunn. Zika-veiran er eitt af því sem talið er hafa valdið aukinni tíðni tilfella Guillian-Barré á svæðum þar sem hún geisar.

Elísabet Reynisdóttir, meistaranemi í næringarfræði, greindist með Guillian-Barré-sjúkdóminn árið 2001. Hún veiktist hægt og rólega, en algengara er að fólk veikist skarpt og snögglega. Veikindin komu í kjölfar fæðingar dóttur hennar, en orsökin er ekki ljós.

„Ég byrjaði á að lamast í þumlinum og var almennt mjög þreytt, gat til dæmis ekki vaknað til barnsins á nóttunni. Svo komu vöðvaverkir, og vöðvar fóru að detta út hægt og rólega. Þessu fylgdi oft mikill sársauki – taugaverkir. Það var eins og líkaminn væri að hamast við að halda öllu í lagi. Mig langaði bara að sofa og losna við þessa verki.“

Á endanum leitaði Elísabet til heilsugæslu og segist hafa verið mjög heppin að fá strax samband við lækni sem hafði nýlega verið við störf á Guillain-Barré-deild í Frakklandi. „Líklega bjargaði hún lífi mínu. Þegar þarna var komið gat ég ekki kyngt, og þá er oft stutt í lömun öndunarfæra. Ég var búin undir að þurfa að fara í öndunarvél og meðferð með mótefnum var strax hafin.“

Eftir þetta veiktist Elísabet enn meira, hún missti bæði mátt og tilfinningu í öllum líkamanum og þjáðist af ýmiss konar skyntruflunum. „Þegar einhver snerti mig ofurlétt gat ég öskrað af sársauka. Ég hefði þurft meðferð miklu fyrr, en ég er auðvitað bara Íslendingur og ætlaði að harka þetta af mér.“

Í dag hefur Elísabet náð sér að einhverju leyti, en hún nær þó líklega aldrei fullri heilsu. „Ég þarf að hugsa mjög vel um mig, hreyfingu, hvíld og mataræði. Ef ég geri það get ég lifað nokkuð góðu lífi þó að sjúkdómurinn sé ævilangt verkefni. Þetta var skelfilega erfitt en varð samt til þess að ég endurskoðaði margt í mínu lífi, ákvað að mennta mig og ýmislegt fleira.“

Elísabet er í dag við það að ljúka meistaranámi í næringarfræði og hefur mikinn áhuga á öllu sem tengist sjúkdómatengdri næringu. „Ég hef trú á að ég hefði náð bata fyrr ef ég hefði fengið góða aðstoð með næringuna.“

Karlmenn noti smokka í kjölfar ferðalaga

Nýjar leiðbeiningar í smíðum hjá landlækni
Karlmenn noti smokka í kjölfar ferðalaga

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir hjá landlæknisembættinu, segir nýjar leiðbeiningar varðandi Zika-veiruna vera í smíðum hjá embættinu.

„Við munum hvetja þungaðar konur til að fresta ferðalögum til svæðanna þar sem sýkinga hefur orðið vart, og sömuleiðis mælast til þess að karlmenn sem hafa dvalið á sýktum svæðum noti smokka við kynmök í að minnsta kosti mánuð eftir að heim er komið. Þessar nýju fréttir um smit við kynmök eru athyglisverðar, en þá hafa karlmenn smitað konur. Tilmælin um notkun smokka munu gilda þó svo að þeir hafi ekki veikst, því margir sýkjast án þess að vita af því. Vitað er að veiran lifir í allt að fjórar vikur í sæði karlmanna, þó svo að staðfest smit með kynmökum séu enn sem komið er örfá og hættan líklega lítil.“

Þórólfur bendir á að smitleiðir séu fyrst og fremst með moskítóflugum, og þær þrífist ekki á Íslandi. „Hættan virðist því einkum vera á þessum svæðum í Mið- og Suður-Ameríku.“

Að sögn Þórólfs fylgist embætti landlæknis vel með nýjum gögnum um veiruna sem berast daglega. „Við erum að fá álit og yfirlestur frá nokkrum sérfræðingum og í kjölfarið munum við senda læknum leiðbeiningar embættisins og birta þær á heimasíðu okkar.“

Þessi litli skógur, um 30 kílómetra suður af höfuðborginni Kampala, er nú í eigu veirurannsóknarstofnunar Úganda.
Zika-skógurinn í Úganda Þessi litli skógur, um 30 kílómetra suður af höfuðborginni Kampala, er nú í eigu veirurannsóknarstofnunar Úganda.

Mynd: EPA

Útbreiðsla Zika-veirunnar

Í dag hefur smit af völdum Zika-veirunnar verið staðfest í eftirfarandi löndum:

BarbadosBólivíaBrasilíaKólumbíaPúertó RíkóKostaríkaCuracaoDómíníska lýðveldiðEkvadorEl SalvadorFranska GvæjanaGvadelúpeyjarGvatemalaGvæjanaHaítíHondúrasJamaíkaMartiníkMexíkóNíkaragvaPanamaParagvæSankti MartinSúrínamBandarísku JómfrúaeyjarVenesúelaBandaríska SamóaSamóaTongaGrænhöfðaeyjar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar