„Þetta leggst mjög vel í mig. Það er alltaf gaman að spila á móti Þýskalandi, við höfum gert það reglulega undanfarið,“ sagði landsliðskonan Alexandra Jóhannsdóttir við 433.is fyrir æfingu Íslands í Laugardalnum í dag.
Framundan er leikur í undankeppni EM við Þýskaland hér heima. Liðin hafa mæst reglulega undanfarið og síðast í leik liðanna ytra í þessari sömu keppni. Hann tapaðist 3-1.
„Við vitum í hverju þær eru góðar og hvað við erum að fara út í. Við þurfum bara að hamra á þeim atriðum og mæta almennilega til leiks.“
Leikurinn gegn Þjóðverjum er á föstudag og fjórum dögum síðar heimsækja Stelpurnar okkar Pólverja. Sigur í öðrum hvorum leiknum gulltryggir sætið á EM.
„Það væri skemmtilegra að gera það á heimavelli og á móti Þjóðverjum,“ sagði Alexandra.
Viðtalið í heild er í spilaranum.