Karlmaður hefur verið dæmdur til 45 daga fangelsis fyrir að keyra próflaus og reyna að koma sökinni upp á annan mann. Rangar sakargiftir eru brot á hegningarlögum.
Dómurinn féll í Héraðsdómi Suðurlands þann 29. maí síðastliðinn en var ekki birtur fyrr en nú. Það var Lögreglustjórinn á Suðurlandi sem höfðaði málið á hendur manninum með ákæru.
Laugardaginn 5. ágúst árið 2023 stöðvaði lögregla manninn þar sem hann var að keyra Suðurlandsveg við Kotströnd í sveitarfélaginu Ölfusi. Maðurinn var sviptur ökuréttindum ævilangt. En þegar lögregla spurði hann um nafn og kennitölu gaf hann upp nafn og kennitölu annars manns og skrifaði undir vettvangsskýrslu með falsaðri undirskrift. Sá maður sem hann þóttist vera var einnig sviptur ökuréttindum ævilangt.
Maðurinn mætti ekki við þingfestingu málsins þrátt fyrir að honum hafi verið birt ákæra þann 10. apríl síðastliðinn. Einnig var birt fyrirkall þar sem tekið var fram að málið kynni að vera dæmt að honum fjarstöddum.
Taldi dómari sannað að maðurinn hefði gerst sekur um háttsemina. Það er bæði brot á umferðarlögum og hegningarlögum og þar með unnið sér til refsingar.
Í sakavottorði mannsins sást að hann hafði fjórum sinnum áður sætt refsingu, þar af tvívegis fyrir það að keyra sviptur ökuréttindum. Meðal annars var hann dæmdur til fangelsisvistar og sektar fyrir það í apríl árið 2023 og til sektar í ágúst sama ár.
„Að öðru leyti hefur sakaferill ákærða ekki áhrif við ákvörðun refsingar í máli þessu. Ákærði er nú meðal annars fundinn sekur um akstur sviptur ökurétti og er það í þriðja sinn,“ segir í dóminum.
Þótti dómara hæfileg refsing 45 daga fangelsi. En tekið var tillit til þess að hann hefði aldrei gerst sekur áður um hegningarlagabrot. Voru því 15 dagar refsingarinnar bundnir skilorði til tveggja ára. Hafa ber í huga að hámarksrefsing fyrir rangar sakargiftir eru 10 ára fangelsi og verður því að teljast að maðurinn hafi sloppið ansi vel.
Þá var manninum gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem námu 128.960 krónum.