fbpx
Miðvikudagur 30.apríl 2025
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Líkur á eins máls kosningum

Eyjan
Fimmtudaginn 7. mars 2024 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Síðasti þjóðarpúls Gallup sýnir að tiltölulega litlar breytingar á fylgi flokka geta haft veruleg áhrif á hvers konar ríkisstjórn verður unnt að mynda að kosningum loknum.

Tvennt vekur einkum athygli í stöðunni eins og sakir standa:

Annað er að VG þarf aðeins að bæta stöðu sína um 0,3% til þess að hrein vinstri stjórn sé áfram líklegasta niðurstaðan.

Hitt er að nú virðast vera meiri líkur á að þeim flokkum, sem vilja gera kosningabaráttuna að eins máls umræðu um útlendingamál, takist það.

Langur aðdragandi

Afgerandi forysta Samfylkingar í könnunum í langan tíma sýnir nokkuð örugga mynd af breyttu pólitísku landslagi.

Samfylkingin er nú stærsti flokkurinn í öllum kjördæmum.

Í kosningunum 2003 náði þáverandi formaður Samfylkingar fyrsta sætinu í Reykjavíkurkjördæmi norður af þáverandi formanni Sjálfstæðisflokks. Segja má að það hafi verið fyrsta vísbending um að Samfylkingin gæti náð forystuhlutverkinu af Sjálfstæðisflokknum.

Aðdragandinn er því langur og skrykkjóttur.

Sögðu ósatt

Á Alþingi í vikunni kom fram að nokkurra daga gamlar yfirlýsingar um sameiginlega sýn stjórnarflokkanna í útlendingamálum reyndust vera ósannar. Svo virðist sem forystumenn flokkanna hafi af ráðnum hug blekkt þjóðina um raunverulega stöðu málsins.

Varaformaður VG hefur upplýst að forystuflokkur ríkisstjórnarinnar hafi hvað eftir annað staðið andspænis hótunum sjálfstæðismanna. Annað hvort var að samþykkja allt eða ekkert. Það hefur svo leitt til þess að þingmenn VG hafa lýst margvíslegum fyrirvörum við frumvarp dómsmálaráðherra um útlendingamál, sem vera átti fyrst skrefið í sameiginlegri sýn.

Vinnubrögð af þessu tagi sýna glöggt að stjórnarflokkarnir geta ekki eða vilja ekki gera málamiðlanir á þessu sviði fremur en öðrum. Það er einfaldlega ekki ríkisstjórn í landinu, sem unnt er að kalla því nafni.

Breiddin hverfur

Í þessari stöðu bendir flest til þess að Sjálfstæðisflokkurinn ætli að snúa kosningabaráttunni upp í eins máls umræðu um útlendingamál. Með því slær hann tvær flugur í einu höggi.

Hann reynir að stöðva atkvæðaflótta yfir til Miðflokksins.

Svo er honum mjög í mun að losna undan umræðu um efnahagsmál, ríkisfjármál, stöðnun í alþjóðlegri samvinnu, orkumál, gjaldtöku fyrir tímabundin afnot auðlinda, kreppu löggæslunnar, stöðugt lengri málsmeðferðartíma fyrir dómstólum, kreppuna í heilbrigðiskerfinu og vanda skólanna.

Sjálfstæðisflokkurinn gengur í fyrsta skipti til kosninga sem næst stærsti flokkurinn. Í þeirri stöðu virðist hann telja eins máls umræðu beittasta vopnið. Breiddin í málflutningnum, sem áður var helsti styrkurinn, virðist vera að hverfa.

Skjól fyrir Samfylkingu

Samfylkingin hefur ýtt öllum málum til hliðar nema hækkun skatta til að auka útgjöld til heilbrigðis- og velferðarmála.

Eins máls kosningar myndu eðlilega veita Samfylkingunni nokkuð skjól með þessa einföldu pólitík, sem leitt hefur til  mikillar fylgisaukningar.

Þessi sérkennilega málefnastaða tveggja stærstu flokkanna gæti opnað möguleika fyrir Framsókn og Viðreisn til þess að breikka umræðuna. Reynslan annarra þjóða sýnir þó að það getur reynst erfitt í miklum tilfinningahita um útlendingamál.

Vinstri stjórn líklegust

Í langan tíma hafa skoðanakannanir sýnt að Samfylkingin hefur haft hreinan meirihluta með VG, Pírötum og Flokki fólksins til þess að mynda vinstri stjórn um stóraukna skatta og aukin útgjöld.

Falli VG hins vegar út af þingi er vinstri stjórn af þessu tagi úr sögunni. En það þarf fleiri kannanir áður en því verður slegið föstu.

Vinstri stjórn er því enn líklegust. Samfylkingin fengi þar allt fram sem hún talar fyrir án málamiðlana.

Samstarf Samfylkingar við Viðreisn og Framsókn yrði mun flóknara og myndi kalla á minni skattheimtu og málefnasamning á miklu breiðara málefnasviði en hún talar um í kosningunum. Viðreisn og Framsókn þurfa meira fylgi til þess að slík stjórn sé raunhæf.

Loks gæti Samfylkingin tekið Sjálfstæðisflokk með sér í tveggja flokka stjórn. Hætt er við að það yrði sams konar stjórn og sú sem nú situr þar sem öll stærstu mál yrðu sett á ís. Þó að þetta sé ekki fyrsti  kostur er hann ekki útilokaður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Réttlæti miskunnsama samherjans

Svarthöfði skrifar: Réttlæti miskunnsama samherjans
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Thomas Möller skrifar: Lærum af Japönum

Thomas Möller skrifar: Lærum af Japönum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvar á Ísland heima í tollastyrjöld?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvar á Ísland heima í tollastyrjöld?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

María Rut Kristinsdóttir: Er ekki góð stemning?

María Rut Kristinsdóttir: Er ekki góð stemning?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Megas áttræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Megas áttræður
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Svarthöfði skrifar: Flís og bjálki – þar er efinn

Svarthöfði skrifar: Flís og bjálki – þar er efinn
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið og „sósíalismi andskotans“

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið og „sósíalismi andskotans“
EyjanFastir pennar
27.03.2025

Þorsteinn Pálsson skrifar: Boðflennur, fullveldi og fjölþjóðasamvinna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Boðflennur, fullveldi og fjölþjóðasamvinna
EyjanFastir pennar
26.03.2025

Svarthöfði skrifar: Skilningslaus ríkisstjórn – hver á núna að halda uppi húsnæðisverði á Íslandi?

Svarthöfði skrifar: Skilningslaus ríkisstjórn – hver á núna að halda uppi húsnæðisverði á Íslandi?