Norska leyniþjónustan PST segir að barnungir drengir snúist til öfgahyggju við að komast í snertingu við áróður öfgahægrimanna og við að sjá ofbeldisefni á Internetinu.
Á undanförnu árum hefur PST komið upp um rúmlega tíu börn, á aldrinum 12 til 15 ára, sem hugðu á hryðjuverk í Noregi.
Linn Havnelid, forstjóri hryðjuverkadeildar PST, skýrði frá þessu í samtali við Dagbladet. Hún sagði að sá yngsti, sem PST hefur komið upp um, sé 12 ára norskur drengur sem aðhylltist öfgahægrimennsku.
Hún vildi ekki skýra nánar frá drengnum eða hverskonar árásir PST hefur komið í veg fyrir.
Hún vísaði því á bug að það sé aðeins í borgum landsins sem ungmenni snúist til öfgahyggju. Yfirleitt komist þau í snertingu við öfgahyggju á Internetinu og laðist að henni.
„Við sjáum að ungir drengir snúast til öfgahyggju án þess að vera í sambandi við aðra. Þeir verða hluti af áróðri öfgahægrimanna og ofbeldishyggju sem þeir finna á Internetinu,“ sagði hún.
Hún sagði að börnin, sem PST hefur komið upp um, hafi skipulagt hryðjuverkin í lokuðum og dulkóðuðum spjallhópum á Internetinu.
Hún sagði einnig að drengirnir eigi það oft sameiginlegt að falla illa í hóp og glíma við andleg veikindi.