Kristín Jónsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að eldgosið sem hófst á Reykjanesskaga í morgun sé á heppilegum stað með tilliti til innviða.
Eldgos hófst nærri Sundhnúkum klukkan 06:03 í morgun en um hálftíma áður hafði verið vart við aukna jarðskjálftatíðni á svæðinu. Kristín segir að gosið virðist vera á svipuðum slóðum og gosið í desember.
„Þetta er norðarlega og það er alveg greinilegt að sprungan er að teygja úr sér bæði til norðurs og suðurs. Staðsetningin er við Sundhnúka og í rauninni austan og norðaustan við Sýlingarfell,“ sagði Kristín í beinni útsendingu á Rás 2 í morgun og bættti við að upptökin væru fjær Grindavík.
„Þetta gerðist mjög hratt. Eins og við vorum í rauninni búin að óttast að gæti gerst,“ sagði hún.
Gosið virðist vera nokkuð umfangsmikið og bendir hún á að strókarnir sjáist vel úr Reykjavík.
„Ég er uppi á Veðurstofu á Bústaðarvegi og þetta sést greinilega út um gluggann. Það sést að það gýs á sprungu, það er breiður bjarmi.“
Aðspurð hvort líkur séu á því að nýjar sprungur opnist segir Kristín:
„Ég held að akkúrat núna séu þær mjög miklar. Kvikan er þarna þannig að það er langlíklegast að það opnist sprungur rétt norðan og sunnna við þann stað sem gýs á núna. Góðu frétirnar eru þær að þetta er töluvert norðan við Grindavík og fjær öllum innviðum.“
Segir Kristín að varnargarðar sem búið er að reisa komi til með að vernda Svartsengissvæðið komi til þess að hraun renni þangað. „Það svæði er varið.“