Theodór Elmar Bjarnason, fyrrum landsliðsmaður og leikmaður KR, var gestur í nýjasta þætti Íþróttavikunnar. Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson hafa umsjón með þættinum, sem kemur út alla föstudaga á 433.is, Hringbraut.is og í Sjónvarpi Símans.
Þátttaka Gylfa Þórs Sigurðssonar og Arons Einars Gunnarssonar fyrir leik Íslands gegn Ísrael í mars í umspili um sæti á EM er í óvissu. Elmar spilaði með þeim báðum á landsliðsferlinum og þrátt fyrir að hann telji reynslu þeirra mikilvæga vill hann ekki að þeir séu notaðir ef þeir eru ekki klárir.
„Það væri gott að hafa reynsluna þeirra. Þetta eru frábærir leikmenn og frábærir karakterar. En ég er ekkert endilega hlynntur því að vera að taka meidda menn inn í hópinn ef þeir geta ekki gert neitt á æfingum eða í leiknum.
Age (Hareide landsliðsþjálfari) metur það hversu mikilvægir þeir eru upp á að deila reynslunni og taka pressuna á sig fyrir leikinn. En ég er ekki sérlega hlynntur því. Það er ekki það mikið sem skilur að á milli þeirra bestu og næstbestu að maður hafi efni á að spila á meiddum mönnum,“ sagði Elmar.
Umræðan í heild er í spilaranum.