Samkvæmt árlegri jólakönnun ELKO er snjallsími jólagjöfin í ár. Þar með hrifsar snjallsíminn toppsætið frá airfryer sem var jólagjöfin í fyrra, en er nú aðeins í níunda sæti. Mögulega sökum þess að allir og amma þeirra eiga nú slíka græju.
Á eftir snjallsímanum koma leikjatölvur. Fremst þar í flokki er PlayStation 5 sem hefur notið gífurlega vinsælda síðan hún kom fyrst út árið 2020. ELKO segir í tilkynningu að nú í ár megi reikna með að hægt verði að anna eftirspurn eftir tölvunni, en síðustu jól hefur verið slegist um leikjatölvuna og margir setið eftir með sárt ennið. Eins eru handheldar leikjatölvur að verða vinsælli, svo sem NintendoSwitch, og telur ELKO að sú tölva verði áfram vinsæl um jólin.
„Í þriðja sæti eru svo heyrnartól, en í þeim flokki voru Airpods oftast nefnd eða í 25% tilfella en vegna vinsælda þessara heyrnartóla frá Apple hefur nafn þeirra nánast orðið samnefnari fyrir öll heyrnartól í eyru,“ er haft eftir Arinbirni Haukssyni, forstöðumanni markaðssviðs ELKO. Í fjórða sætinu var svo snjallúr og það á eftir góð bók, afþreying, upplifun og svo gjafabréf.
„Við sendum jólakönnun ELKO á póstlistann okkar um miðjan október og fengum rúmlega 6.000 svör við könnuninni í ár,“ segir Arinbjörn. Margt komi forvitnilegt fram í svörum, svo sem að 4,5% svarenda ætli ekki að vera heima um jólin, 47,6% kaupa tíu eða fleiri jólagjafir, 23,6% 18 ára og eldri fá í skóinn á aðfangadag og rúmlega helmingur heldur í hefðir og gæðir sér á möndlugraut um jólin.
Skemmtilegt var að sjá að 98% svarenda ætli að fletta jólagjafahandbók ELKO sem kemur út í lok mánaðar og meirihluti þeirra ætlar að fletta rafrænu eintaki þessi.
Úr flokki eldhústækja eru það helst kaffivélar, hrærivélar og pizzaofnar sem munu njóta vinsælda um jólin og mögulega muni sumir stækka við airfryerinn sinn. Arinbjörn sér fram á mikla verslun á Þorláksmessu sem á þessu ári lendir á laugardegi.
Annað skemmtilegt úr könnuninni er að um helmingur svarenda hafði lent í því að fá tvær eins jólagjafir. Arinbjörn biður neytendur því að huga að skilarétti á jólagjöfum.
„Og til að tryggja að allar gjafir hitti í mark bjóðum við skilarétt á jólagjöfum fram til 31. janúar. Við skiptavinir fá alltaf fullt verð vörunnar við skil eða skipti. Eins getur fólk prófað vörurnar áður en þeim er skilað og gilda þá almennir skilmálar ELKO. Við fáum yfirleitt fyrirspurnir um miðjan október um hvenær við byrjum að bjóða jólaskilamiða á vörur úr ELKO. Í ár virkjuðum við skilamiðana 16. október og er þá um að ræða yfir 100 daga skilarétt fyrir þá sem byrjuðu snemma að kaupa jólagjafir í ár,“ segir Arinbjörn.