fbpx
Föstudagur 10.maí 2024
Fréttir

Grunnskólakennari fær ekki bætur vegna árásar nemanda

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 14. nóvember 2023 12:37

Héraðsdómur Reykjavíkur

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 10. nóvember síðastliðinn var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur sem grunnskólakennari höfðaði á hendur Vátryggingafélagi Íslands (VÍS) og aðila sem ekki er nafngreiddur í dómnum en leiða má að því líkum að um sé að ræða það sveitarfélag sem rekur grunnskólann sem kennarinn starfaði hjá. Fór kennarinn, sem er kona, fram á skaðabætur af hálfu sveitarfélagsins og greiðslur úr ábyrgðartryggingu þess hjá VÍS vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir í starfi í kjölfar árásar af hálfu nemanda. Voru VÍS og sveitarfélagið sýknuð af öllum kröfum konunnar.

Í dómnum segir að kennarinn hafi í mars 2017 orðið fyrir árás. Nemandi hafi átt við hegðunarvanda að etja og þurft á sértækum námsúrræðum að halda en ágreiningur sé uppi um hvort nemandinn hafi áður sýnt af sér ofbeldishegðun gagnvart starfsfólki skólans. Ekki sé upplýst í málinu hvort nemandinn hafi fengið greiningar á vanda sínum, hvorki fyrir atvikið né eftir það.

Í dómnum segir einnig að kennarinn hafi séð nemandann hlaupa á eftir öðrum nemanda en samkvæmt reglum skólans hafi verið bannað að hlaupa í matsalnum. Kennarinn hafi gripið í handlegg nemandans sem hafi þá kýlt hana í annan kjálkann. Kennarinn hafi þá dregið nemandann út úr matsalnum sem hafi barist á móti. Við tröppur hafi hún misst takið á nemandanum, fallið aftur fyrir sig og fengið nemandann ofan á sig og hann hafi náð að skella hnakka sínum í andlit hennar svo hún hafi vankast.

Var konan flutt á sjúkrahús og greind með yfirborðsáverka og heilahristing. Samkvæmt örorkumati var hún haldin heilkenni eftir höfuðáverka, áfallastreitu og eftirstöðvum hálstognunar. Varanleg örorka var metin 10 prósent.

Ágreiningur um ofbeldishneigð

Í dómnum segir að eftir atvikið hafi verið gerð sérstök öryggisáætlun í skólanum vegna umrædds nemanda og var hún sérstaklega löguð að þörfum hans og ekki síst lögð áhersla á að tala rólega til hans.

Kennarinn byggði bótakröfur sínar á því að nemandinn hefði þurft á sérstöku eftirliti að halda vegna fjölþætts vanda hans en það hefði verið vanrækt af hálfu skólans. Annað starfsfólk hefði komið of seint til aðstoðar. Fullyrti kennarinn að nemandinn hefði áður beitt starfsfólk skólans ofbeldi. Hún sagðist ekki hafa fengið leiðbeiningar um hvernig bregðast ætti við ofbeldishneigð nemenda og að málið hefði ekki verið tilkynnt til Vinnueftirlitsins og þar af leiðandi ekki rannsakað.

VÍS og hið ónefnda sveitarfélag héldu því hins vegar fram fyrir dómi að ekki hefði tekist að færa sönnur á að starfsmenn skólans eða sveitarfélagsins hefðu gerst sekir um saknæma háttsemi. Fullyrtu þessir aðilar einnig að nemandinn hefði aldrei áður sýnt af sér ofbeldisfulla hegðun. Skólastjórnendur hafi eindregið verið á því að ekki hefði verið tilefni fyrir atvikið til að grípa til sérstakra ráðstafana vegna nemandans. Eru samskiptaörðugleikar meðal starfsmanna skólans sagðir hafa litað framburð tveggja starfsmanna sem tóku undir með kennaranum um ofbeldishneigð nemandans.

VÍS og sveitarfélagið héldu því einnig fram að grunnskólalög skylduðu ekki grunnskóla til að grípa til sérstakra öryggisáætlana vegna tiltekinna nemenda. Kennarinn hefði á grunni menntunar sinnar sem grunnskólakennari átt að vita hvernig nálgast ætti erfiða nemendur. Viðbrögð kennarans hafi verið röng, hún hafi komið átökum af stað og brotið reglugerð um líkamlegt inngrip í skólastarfi. Nemandinn hafi ekki verið að sýna af sér ógnandi hegðun þegar kennarinn hafi gripið í handlegg hans sem hafi orðið til þess að nemandinn hafi misst stjórn á sér og kýlt kennarann. Rétt viðbrögð í kjölfarið hefðu verið að kalla strax eftir aðstoð og einangra nemandann í stað þess að draga hann út úr salnum með valdi.

Höfnuðu því VÍS og sveitarfélagið alfarið kröfum kennarans á þeim grunni að röng viðbrögð og saknæm háttsemi hennar sjálfrar hefðu orsakað atvikið og það líkamstjón sem hún varð fyrir í kjölfar þess.

Kennarinn hafi brugðist rangt við

Í niðurstöðu dómsins er vitnað til framburðar tveggja starfsmanna um að nemandinn hefði áður ráðist á starfsfólk skólans og að kennaranum hafi verið kunnugt um þau atvik. Því sé talið sannað að nemandinn hafi átt það til að missa stjórn á sér og beita ofbeldi.

Ekki verði hins vegar litið framhjá því að kennarinn hafi brotið reglugerð um líkamlegt inngrip í skólastarfi með því að grípa í nemandann þegar hann var að hlaupa í matsalnum. Ósannað sé að bráðnauðsynlegt hafi verið að stöðva hlaup hans með þessum hætti vegna yfirvofandi slysahættu. Kennaranum hafi verið kunnugt um hegðunarvanda nemandans og því átt að gera sér grein fyrir hver viðbrögð hans gætu orðið. Fjöldi annarra starfsmanna hafi verið í matsalnum og því ekki þörf á því að kennarinn drægi, ein síns liðs, nemandann út úr salnum.

Segir einnig í niðurstöðu dómsins að í ljósi menntunar sinnar hafi kennarinn átt að vita vel að líkamlegt inngrip hennar hefði ekki verið ráðlegt. Ekki hafi komið neitt fram sem sanni að starfsmenn skólans hafi viðhaft saknæma háttsemi og því sé ekkert sem skapi bótaskyldu í málinu.

Það er niðurstaða dómsins að slysið hafi orðið vegna aðgæsluleysis kennarans og rangra viðbragða hennar í umrætt sinn.

Þar af leiðandi voru VÍS og sveitarfélagið sýknuð af öllum kröfum kennarans.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Kemur Stefáni og skriðdrekanum til varna þó hann sé ekki félagsmaður

Kemur Stefáni og skriðdrekanum til varna þó hann sé ekki félagsmaður
Fréttir
Í gær

Dagur skýtur föstum skotum til baka og segir bæði Maríu og RÚV hafa staðfest villandi framsetningu- „Ekki mikil reisn yfir þessari yfirlýsingu Maríu Sigrúnar“

Dagur skýtur föstum skotum til baka og segir bæði Maríu og RÚV hafa staðfest villandi framsetningu- „Ekki mikil reisn yfir þessari yfirlýsingu Maríu Sigrúnar“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dagmar frétti um kæru Bigga gegn sér í fjölmiðlum – „Ég er miklu sterkari en hann heldur“

Dagmar frétti um kæru Bigga gegn sér í fjölmiðlum – „Ég er miklu sterkari en hann heldur“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dagur undrandi á Kastljóssþætti Maríu Sigrúnar – „Drungalegt fundarherbergi og fiðlutónlist undir“

Dagur undrandi á Kastljóssþætti Maríu Sigrúnar – „Drungalegt fundarherbergi og fiðlutónlist undir“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sauð upp úr hjá Dóru Björt og Ragnhildi Öldu – „Það er fáránlegt hvernig þú lætur. Þetta er alveg svakalegt með þig“

Sauð upp úr hjá Dóru Björt og Ragnhildi Öldu – „Það er fáránlegt hvernig þú lætur. Þetta er alveg svakalegt með þig“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hera úr leik

Hera úr leik