Ákæru héraðssaksóknara á hendur þeim Sindra Snæ Birgissyni og Ísidór Nathanssyni um tilraun til hryðjuverka hefur nú verið vísað frá dómi í annað sinn. Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp úrskurð þess efnis í dag.
Eins og rækilega hefur komið fram í fréttum hafa ákærur á þá félaga um tilraun til hryðujuverka að mestu leyti verið byggðar á skilaboðaspjalli þeirra á forritinu Signal þar sem þeir viðruðu ýmsa óra um hryðjuverk og annað ofbeldi. Verjendur þeirra hafa ítrekað bent á að það skorti rök og gögn um raunverulegar undirbúningsathafnir til hryðjuverka.
Fyrir ákæru héraðssaksóknara varðandi hryðjuverkaþátt málsins var vísað frá í fyrra og var þá lögð fram önnur ákæra. Henni hefur núna verið vísað frá.
Í úrskurðinum segir að verulega skorti á að í ákærunni sé gerð grein fyrir því með skýrum hætti hvernig allt sem greint er frá í verknaðalýsingum tengist ætlaðri ákvörðun mannanna um að fremja hryðjuverk.
Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Sindra Snæs, segir í samtali við DV að þessi niðurstaða hafi verið fyrirsjáanleg:
„Það er mál að linni og ákæruvaldið láti gott heita. Það er ekki hægt að halda áfram að reyna að vinda ofan af mistökum ríkislögreglustjóra í upphafi þessa máls. Hefðu menn haldið að sér höndum í upphafi og ekki haldið þennan blaðamannafund sem aldrei skyldi hafa verið haldinn sem leiddi til þess að öll rannsókn málsins miðaði að því að sanna stóryrtar yfirlýsingar á blaðamannafundinum, þá værum við í allt annarri stöðu í dag. Þá hefði aldrei verið ákært nema fyrir brot á vopnalögum.“