Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag og hefur eftir Vilhjálmi að hann hafi lagt mikla áherslu á að þetta væri í forgangi þegar samgönguáætlunin var kláruð áður en samgöngusáttmálinn var undirritaður. Ástæðan sé að þetta sé hagkvæmasta og fljótasta lausnin til að ná einhverjum úrbótum fram.
Á næsta borgarstjórnarfundi hyggst Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, leggja fram tillögu er varðar endurskoðun samgöngusáttmálans. Hún hyggst leggja til að snjallljósastýring verði gerð að algjöru forgangsverkefni hvað varðar tímaramma þegar kemur að endurskoðun sáttmálans.
Í tillögu hennar er miðað við að allra nýjasta tækni verði innleidd en hún byggist á miðlægu tölvukerfi sem notar innrauðar myndavélar, radar og gervigreind til að greina alla umferð.
Vilhjálmur sagðist ætla að fylgja því eftir á Alþingi að uppfærður samgöngusamningur verði tekinn fyrir og að umferðarstýring verði sett í forgang. „Við þurfum að nota allar leiðir til þess að gera eitthvað í þessum umferðarvandamálum sem eru á höfuðborgarsvæðinu. Það sem snjallljósin gera er að nota nýjustu tækni til þess að greiða eins mikið og mögulegt er úr umferðinni miðað við þá innviði sem við höfum núna, án skipulagsbreytinga og án kostnaðarsamra framkvæmda,“ sagði hann.