fbpx
Föstudagur 09.maí 2025
Matur

Suðrænir kokkanemar kynna saltfiskrétti á Íslandi

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 21. september 2023 11:34

Mynd: Aðsend

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það var margt um manninn og glatt á hjalla þegar suðrænir matreiðslunemar kynntu rétti úr íslenskum saltfiski í Hótel- og matvælaskólanum í MK þann 19. september. Kynningin var samstarf MK og Bacalao de Islandia, kynningarverkefnis fyrir íslenskan þorsk á Spáni, Ítalíu og í Portúgal, eins og segir í tilkynningu. Undanfarin ár hefur megináherslan í verkefninu verið samstarf með matreiðsluskólum, þar sem kokkar framtíðarinnar stíga sín fyrstu skref. Hluti af því samstarfi er CECBI, matreiðslukeppni á landsvísu þar sem íslenskur saltfiskur er aðal hráefnið. Þetta er í þriðja skiptið sem keppnin fer fram og er hún búin að festa sig í sessi á meðal þarlendra kokkanema.

Mynd: Aðsend

Í Suður Evrópu er íslenski saltfiskurinn þekktur fyrir gæði sín og er uppistaðan í fjölmörgum þjóðaruppskriftum, og jafnvel sem jólamatur á mörgum heimilum. „Það er okkur mikil ánægja að heimsækja ykkar fallega land og að kynnast uppruna fisksins, sem við þekkjum svo vel. Vonandi getum við miðlað og skilið eftir eitthvað af okkar matreiðsluhefðum í leiðinni,” sagði Francisco Orsi, einn nemanna, frá Bologna á Ítalíu.

Mynd: Aðsend

Auk Franciscos voru sigurvegarar þeir Gonçalo Pereira Gaspar frá Portúgal og Diego Antonio Chavero Rosa frá Spáni. Íslandsferðina hlutu þeir í sigurlaun og komu til landsins ásamt kennurum sínum. Á kynningunni endursköpuðu þeir vinningsréttina, kynntu fyrir gestum og gáfu þeim að smakka. Þar að auki reiddu nemar í Hótel- og matvælaskólanum fram sínar eigin saltfiskkræsingar. Veislustjóri var Fanney Dóra Sigurjónsdóttir matreiðslumeistari og eigandi veitingastaðanna Hnoss og Hjá Jóni.

Daginn eftir móttökuna í MK hélt hópurinn til Vestmannaeyja þar sem þau fóru meðal annars í saltfiskvinnslu VSV og um borð í fiskiskip, auk þess að upplifa dýrindis fiskmeti á veitingastöðum í Eyjum. Það má því segja að þau hafi fengið að kynnast upprunanum alla leið, allt frá veiðum og vinnslu inn í eldhúsið þar sem töfrarnir fara fram.

Mynd: Aðsend
Mynd: Aðsend
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
18.07.2024

Skíthæll í Costco vekur hlátur

Skíthæll í Costco vekur hlátur
Matur
13.07.2024

Ertu með frábæra uppskrift að brauðtertu? Þá getur þú orðið Íslandsmeistari og fengið glæsileg verðlaun

Ertu með frábæra uppskrift að brauðtertu? Þá getur þú orðið Íslandsmeistari og fengið glæsileg verðlaun