Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Þar segir að Veðurstofan hafi á síðasta ári gefið út skýrslu þar sem mat var lagt á aftakaflóð umhverfis landið og er þetta fyrsta matið, sem gert hefur verið, um endurkomutíðni sjávarflóða fyrir allt landið. Út frá þessu mati er hægt að leggja mat á hversu langt inn á land slík flóð geta náð.
Anna Hulda Ólafsdóttir, skrifstofustjóri loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofunni, sagði að kortið sýni í raun ekki framtíðarsviðsmyndir, það sé einungis verið að meta 100 ára viðmiðunarflóð og því sé ekki hægt að spá fyrir um hvar næsta flóð verði.
Hún hefur fjallað um áhrif loftslagsbreytinganna á sjávarstöðuna og hækkun á sjávarborði sem geta haft áhrif á tíðni aftakaflóða. Í heitari sviðsmyndum gætu þau átt sér stað á 12 ára fresti í stað 100 ára.
Haft er eftir henni að við þurfum að breyta hugsunarhætti okkar þegar kemur að skipulagningu byggða, sérstaklega íbúðakjarna, allt frá frárennslismálum til flóðgarða. Hún sagði að nú sé unnið að því að reikna út hækkun á sjávarstöðu til að hægt sé að leggja mat á ólíkar sviðsmyndir varðandi flóð.