Á fundi stjórnar KSÍ þann 24 ágúst var rætt um málefni Alberts Guðmundssonar, leikmanns Genoa. Degi áður hafði verið greint frá því að kæra væri á borði lögreglu þar sem Albert er sakaður um kynferðisbrot.
Albert hefur hafnað þeim ásökunum sem á hann eru bornar en ætlar ekki að tjá sig um málið að öðru leyti.
Samkvæmt reglum hjá KSÍ er þjálfara landsliða bannað að velja leikmann sem er með mál á borði lögreglu og því verður Albert ekki í landsliðinu á næstunni.
„Rætt var um framkomna kæru á hendur leikmanni A landsliðs karla. KSÍ hefur kappkostað við að fylgja viðbragðsáætlun samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsmála og ráðleggingum embættisins,“ segir í fundargerð KSÍ.
Á fundinn voru mætt Vanda Sigurgeirsdóttir formaður, Borghildur Sigurðardóttir varaformaður, Sigfús Ásgeir Kárason varaformaður, Halldór Breiðfjörð Jóhannsson, Helga Helgadóttir, Ívar Ingimarsson, Orri V. Hlöðversson, Pálmi Haraldsson, Tinna Hrund Hlynsdóttir og Unnar Stefán Sigurðsson.
Albert er leikmaður Genoa á Ítalíu en félagið ætlar að sýna honum fullt traust á meðan málið er til ransóknar og halda áfram að spila honum.