Edda Björk Arnardóttir, sem hefur fengið á sig kröfu um handtöku og framsal til Noregs, segir kröfuna vera á röngum forsendum. Í DV kom fram í gær og aftur í Morgunblaðinu í dag að Edda Björk var árið 2020 dæmd í sex mánaða fangelsi í Noregi fyrir að nema syni sína á brott til Íslands árið 2019. Lögfræðingur barnsföður Eddu, Sjak R. Haaheim, segir að ekki hafi tekist að að fullnusta dóminn. Edda segir hins vegar á Facebook-síðu sinni í dag að norsk yfirvöld hafi óskað þess að dómurinn yrði fullnustaður á Íslandi og segist Edda hafa tekið út refsingu sína í formi samfélagsþjónustu.
Eddu hefur nú verið stefnt fyrir dóm í Noregi fyrir að hafa flutt syni sína þrjá í einkaflugvél til Íslands í lok mars árið 2022. Faðir þeirra, sem býr í Noregi, fer með forræði þeirra en drengirnir hafa verið á Íslandi frá því Edda kom með þá til landsins í fyrra.
Haaheim sagði í tölvupósti til DV í gær að faðir drengjanna sé vonsvikinn yfir getuleysi íslenskra yfirvalda við að framfylgja úrskurðum dómstóla í málinu en íslenskir dómstólar hafa úrskurðað að Eddu beri að fara með drengina til Noregs og afhenda barnsföður þeirra þá. Úrskurðunum hefur hins vegar enn ekki verið framfylgt. „Næst gæti Ísland þurft hjálp frá Noregi vegna lögsóknar í sakamáli eða til að snúa við brottnumdum íslenskum börnum. Skjólstæðingur minn væntir þess að Ísland uppfylli skuldbindingar sínar við vinveitt nágrannaríki og fullnusti úrskurði íslenskra dómstóla varðandi það að snúa brottnumdum börnum til síns heima, og uppfylli beiðni norskra yfirvalda um handtöku og framsal, svo hin ákærða, og áður dæmda manneskja verði látin gangast undir sanngjörn réttarhöld fyrir alvarlegan glæp í vinveittu nágrannaríki, í samræmi við reglur réttarríkisins,“ segir Haaheim.
Blaðamaður Morgunblaðsins spyr Haaheim ítrekað hvort vilji barnanna sjálfra eigi ekki að ráða. Haaheim segir: „Þetta hefur ekkert með börnin að gera, svona eru lögin bara hér í Noregi og það eru þau einnig á Íslandi. Þú getur haft hvaða skoðun sem er á þeim dómi sem þér er dæmdur en þú verður að sæta þeim dómi.“
Haaheim segir að framferði Eddu í málinu flokkist undir mannrán. Edda segir hins vegar að norsk yfirvöld virði að vettugi vilja barna hennar í málinu. Hún skrifar á Facebook-síðu sína í dag:
„Drengirnir eru á þrettánda ári og að verða tíu ára og þeirra skoðun skiptir bara akkurat engu máli!
Mér finnst það lýsa vel hæfni einstaklings til að fara með forræði barns, að skoðun barnsins í svona veigamiklum þætti í lífinu skipti engu máli.
Hann hefur líka sýnt að það eina sem skiptir hann máli er að hafa rétt fyrir sér og fá sínu framgengt því ekki hefur hann haft áhuga á að tala við syni undanfarna 16 mánuði nema í heilar 20 mínútur í allt. Þó að honum hafi verið oft boðið að bæði tala við þá og hitta.
Fyrir utan að lögmaðurinn heldur áfram að fara ekki rétt með sannleikann og segir að ég eigi eftir að afplána dóminn frá 2020 og þess vegna beri mér að koma til Noregs. Norsk yfirvöld sendu sjálf dóminn til Fangelisstofnunar og báðu um að honum yrði fullnustað hérna. Sem var svo gert og er ég að sinna samfélagsþjónustu.
Það sem þessi blessaði lögmaður gerði svo 2022 var að fá dómara með sér í að reyna að fá mig framselda til Noregs á þeim grundvelli að ég ætti eftir að fullnusta dóminn í Noregi, því var hafnað af dómstólum hérna af þeirri augljósu ástæðu sem að framan greinir.
Þetta er svo mikil vitleysa og aftur er verið að biðja um að fá mig framselda á röngum forsendum.“