Þeim fjölgar sem lýsa því yfir að biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, sitji umboðslaus í embætti. Samkvæmt reglum um biskupskjör er kjörtími hennar liðinn og efna hefði átt til biskupskjörs á þessu ári. En hún situr í krafti 28 mánaða ráðningarsamnings sem undirmaður hennar, framkvæmdastjóri Biskupsstofu, gerði við hana í fyrra.
Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, sagði í viðtali við Vísir.is í gær að ekki hefði verið lagaheimild fyrir framlengingu ráðningar Agnesar. „Þessi framganga kirkjuyfirvalda vekur upp hugsanir um það hvort að stofnanir þjóðfélagsins séu hættar að fara eftir lögum. Mér finnst þetta þungt áhyggjuefni,“ sagði Jón.
Í viðtali við Morgunblaðið í dag upplýsir Drífa Hjartardóttir, forseti Kirkjuþings, um furðulega staðreynd. Drífa framlengdi skipunartíma biskups um eitt ár í fyrra í krafti nýrra reglna um biskupskjör. Samkvæmt eldri reglum rann skipunartími Agnesar úr árið 2022. En í krafti nýrra reglna um sex ára skipunartíma framlengdi Drífa skipunina um eitt ár. Á þeim tíma hafði Agnes þegar gert fyrrnefndan samning við undirmann sinn.
Í frétt Morgunblaðsins segir: „Samkvæmt framansögðu virðist engu líkara en að sr. Agnes sjálf hafi tekið sér sjálfdæmi um starfslok sín, enda kemur fram í svari kjörstjórnar við bréfi forsætisnefndar að það sé ekki í valdi kjörstjórnar að ákveða framlengingu á þjónustutíma biskups eftir að framlenging starfstíma hans til 1. júlí sl. var ákveðin, en „af bréfi forsætisnefndar dags. 28. febrúar sl. má ráða að nefndin fallist á með biskupi að umboð hans/þjónustutími framlengist um eitt ár, þ.e. til 1. júlí 2024“, segir þar.“
Síðan spyr Mogginn Drífu hvort Agnes hefði sótt fast við hana að starfstíminn yrði framlengdur á ný. Drífa svarar:
„Nei, hún vildi ekkert ræða þetta meira við mig. Forsætisnefnd kirkjuþings fór til hennar í haust fyrir kirkjuþingið og við sögðum henni að við myndum ekki gera neitt í þessum málum hennar og ekki hafa neitt frumkvæði í því. Hún samþykkti það. Síðan kom það mér alveg í opna skjöldu að á sama tíma og ég var að hjálpa henni í fyrra að framlengja skipunartíma hennar um eitt ár, þá er þessi ráðningarsamningur gerður og hún lætur mig ekki vita af því. Það finnst mér mjög einkennilegt, því þetta var á sama tíma og ég var að gera þetta fyrir hana.“