Sigurður Már er vitaskuld ánægður með titilinn en alþjóðasamtök bakara og kökugerðarmanna stóðu fyrir heimsþinginu. Innan alþjóðasamtakanna eru 300.000 bakarí og kökugerðir í fimm mismunandi heimsálfum.

Sigurður Már er einnig formaður Landssambands bakara og tók því þátt í skipulagningu heimsþingsins. Hann segist hafa fengið upplýsingar um hver yrði valinn bakari ársins fyrir um tveimur dögum síðan.

„Ég var búinn að fá upplýsingar um hver yrði bakari ársins því hann átti að hafa samband við mig og fá að nota bakaríið til að baka brauð – en eitthvað fannst mér þetta orðið skrýtið hvað þeir lágu lengi á upplýsingum um konditor ársins. Hann hafði ekki samband og þá fór mig að gruna ýmislegt. Svo sögðu þeir við mig: Nú hefurðu tvo daga til að undirbúa eftirréttinn,“ segir Sigurður Már.

Hann bauð þátttakendum á heimsþinginu upp á sérstaka útgáfu af köku úr sinni smiðju, sem valin var kaka ársins árið 2011.

„Nú verður maður bara að vera duglegur að baka kökur, nú hefst vinnan,“ segir Sigurður Már léttur í bragði.