Erik ten Hag, stjóri Manchester United og leikmenn hans þurftu að hætta við fund sinn fyrir leikinn gegn Liverpool í dag, sem átti að fara fram á Lowry-hótelinu skammt frá Old Trafford.
United mætir Liverpool í stórleik í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Búið er að skipuleggja stór mótmæli fyrir leikinn, þar sem stuðningsmenn láta í ljós óánægju sína með eigendur félagsins, Glazer-fjölskylduna.
Í stað þess að funda á Lowry-hótelinu mun liðið halda fundinn á Old Trafford þremur tímum fyrir leik.
United hefur byrjað tímabilið afleitlega. Liðið tapaði fyrsta leik sínum í ensku úrvalsdeildinni gegn Brighton 1-2 og öðrum leiknum gegn Brentford 4-0.
Á sama tíma hefur Liverpool ekki heldur byrjað vel. Liðið hefur gert jafntefli í báðum leikjum sínum það sem af er, gegn Fulham og Crystal Palace.
Leikur Manchester United og Liverpool hefst klukkan 19 í kvöld að íslenskum tíma.