Lögreglan á Norðurlandi eystra hafði í nægu að snúast í gærkvöldi og í nótt, það sést vel af færslu þeirra á Facebook þar sem helstu verkefni næturinnar eru talin upp.
Lögreglu barst um hálf átta í gærkvöldi tilkynning um mann sem væri mögulega að aka undir áhrifum fíkniefna. Sá hafði einnig veist að konu og ekið svo í burtu. Lögreglan gáfu manninum stöðvunarskyldu sem hann sinnti ekki heldur ók áfram og „viðhafði vítaverðan akstur móti einstefnu og yfir umferðareyjar“. Eftir nokkra mínútna eftirför sem endaði við iðnaðarbil stökk maðurinn út úr bifreiðinni. Lögreglan náði honum á hlaupunum og var maðurinn handtekinn og færður í fangageymslu.
Klukkan hálf tólf í gær barst lögreglu tilkynning um slys í Fjallabyggð. Kona hafði fallið um fjóra metra af bakka og niður í fjöru við Hauganes. Sem betur fer slasaðist konan lítið og björgunarsveitir, sem höfðu verið kallaðar út vegna slyssins, voru fjótlega afboðaðar þegar í ljós kom að hægt var að koma konunni til aðstoðar frá landi.
Karlmaður var rétt eftir miðnætti handtekinn á Siglufirði, en hann hafði verið tilkynntur með ógnandi tilburði og sagðist vera vopnaður hníf. Sérsveit ríkislögreglustjóra á Akureyri var kölluð út vegna. mannsins og hélt af stað á vettvang, en stuttu síðar náði lögreglumenn á Siglufirði að handtaka manninn án vandkvæða og var hann færður á lögreglustöðina á Akureyri í fangageymslu.
Eins var lögreglu tilkynnt um ölvun og ágreining á tjaldsvæðinu við Hamra. Tókst að leysa þann ágreining milli aðila án þess að til handtöku kæmi. Eins tókst að leysa mál sem kom upp á Sjallanum, en þar hafði lögreglu verið tilkynnt um ógnandi framkomu gests gegn dyraverði – það mál var sömuleiðis leyst á staðnum.
Lögreglan var nokkuð í því að aka ofurölvi einstaklingum heim á leið. Voru þeir að sögn lögreglu búnir að fá sér heldur mikið „neðan í því“ og orðnir frekar „lasnir“.
Um fjögur í nótt var lögregla kölluð út að Götubarnum en þar höfðu nokkrir menn veist að öðrum sem tókst að koma sér í skjól á veitingastaðnum og biðja um aðstoð. Maðurinn var svo fluttur á bráðamóttöku sjúkrahússins á Akureyri.