Auðunn Blöndal, Steinþór Hróar Steinþórsson og Egill Einarsson eru allir mættir saman á Tenerife ásamt fjölskyldum sínum. Mikil spenna hefur verið hjá þeim félögum fyrir ferðinni en þeir hafa rætt hana reglulega undanfarnar vikur í útvarpsþætti sínum, FM95BLÖ.
„FM95blö fjölskyldan er mætt til Tene. Greyið börnin…“ skrifar Auðunn, sem iðullega er þekktur sem Auddi Blö, í færslu sem hann birti á Instagram-síðu sinni í gær. Á myndinni má sjá þríeykið ásamt börnum sínum og ljóst er að mikil ánægja er í hópnum með það að vera komin út í sólina. Líklega mun ánægjan verða enn meiri þegar hópurinn gerir sér ferð í hinn víðfræga apagarð eyjunnar en þeir félagar, og sérstaklega Egill, hafa reglulega lýst yfir aðdáun sinni á garðinum í gegnum tíðina.
Einn ástsælasti tónlistarmaður þjóðarinnar, Bubbi Morthens, minnir strákana á í athugasemd við færslu Audda að hugsa um börnin sín. „Munið að hafa fókusinn á börnunum 24/7“ segir Bubbi og bætir við að þeir ættu að halda áfengisneyslunni í hófi. „1 bjór á dag á mann, djöss eru þið flottir.“
Bubbi er ekki sá eini sem hefur áhyggjur af börnunum en í athugasemdunum taka nokkrir í sama streng. „Guð blessi börnin… og konurnar líka,“ segir til að mynda í einni athugasemdinni.
View this post on Instagram