Edu, yfirmaður knattspyrnumála hjá Arsenal, hefur komið stefnu félagsins á félagsskiptamarkaðnum til varnar, en Arsenal situr á botni deildarinnar með þrjú töp í þremur leikjum það sem af er tímabils.
Arsenal hefur eytt hátt í 150 milljónum punda í nýja leikmenn í sumar, en það er meira en nokkurt annað úrvalsdeildarlið. Þrátt fyrir það hefur Arsenal byrjað tímabilið á ósigrum gegn Brentford, Chelsea og Manchester City.
„Við þurfum að skoða heildarmyndina frekar en að horfa bara á upphæðirnar.“ sagði Edu í viðtali á Sky Sports. „Við keyptum sex leikmenn sem eru yngri 23 ára, sem hefur mikið með framtíðaráform okkar að gera. Við fórum að undirbúa leikmannahópinn fyrir ári síðan til að þétta hópinn og reyna að koma á fót sterkari stoðum. Við þurfum að koma meira jafnvægi í liðið.“
Ben White voru dýrustu kaup Arsenal í sumar en hann kom frá Brighton á 50 milljónir punda. Arsenal keypti einnig þá Sambi Lokonga, Martin Odeegard, Aaron Ramsdale, Nuno Tavares og Takehiro Tomiyasu. Arsenal er ekki í Evrópukeppni í ár í fyrsta sinn frá árinu 1995, og hefur ekki byrjað verr í efstu deild síðan árið 1967.
„Hópurinn þarf að vera í góðu standi í lok leiktíðar og þetta snýst ekki bara um byrjunarliðið,“ sagði Edu. „Við þurfum grunn og við þurfum hjálp.“
Edu segir sárt að sjá Arsenal á botninum og án marks í deildinni. „Ég vil ekki sjá klúbbinn þarna, en ég vil sjá liðið spila betur. Ég skil að þetta er erfið staða, en við skulum dæma liðið þegar það er búið að spila saman.“
Brasilíumaðurinn var skipaður yfirmaður knattspyrnumála árið 2019 og sagði að hann væri gríðarlega ánægður með viðskiptin í sumar. „Þetta er það sem við byrjuðum að undirbúa fyrir ári síðan, sagði hann. Við framkvæmdum allt planið, öll skrefin, allt ferlið sem við settum saman.“