Roy Keane er alls ekki hrifinn af því að skipta á treyjum og sér mikið eftir því þegar hann bað leikmann um það. Var það í fyrsta og eina skipti hans á ferlinum.
Keane hafði lítinn áhuga á því að skiptast á treyjum við leikmenn á ferli sínum, alveg sama hve stór leikmaðurinn var. Í æfingaleik fyrir HM 1994 spilaði Írland gegn Þýskalandi og bað Keane Matthias Sammer um að skiptast á treyjum. Hann segist aðeins hafa gert það til að sýna virðingu en Sammer neitaði.
„Ég hef aðeins einu sinni beðið leikmann um að skiptast á treyjum og ég sá mikið eftir því,“ sagði Keane við Gary Neville í hlaðvarpsþættinum The Overlap.
„Hann var að labba af vellinum og ég vildi bara vera kurteis. Hann sagði nei. Þá var það bara búið, ég ætti ekki að vera að spyrja neinn. Ég var bara að sýna virðingu, það er ekki eins og mig langaði í treyjuna hans.“
Keane viðurkenndi þó í hlaðvarpsþættinum að hann hafi helst hugsað sér að fá treyjuna hans Zidane en ákvað þó að spyrja ekki.