„Er þetta raunverulega það þjóðfélag sem við viljum lifa í? Er það rétt og eðlilegt að einstaklingar séu fordæmdir og útskúfaðir með þessum hætti, án dóms og laga?“ spyr Hörður Felix Harðarson, lögmaður Kolbeins Sigþórssonar, í aðsendri grein um málefni knattspyrnumannsins sem að birtist á Vísi fyrir stuttu.
Í greininni rekur hann stuttlega málið sem hefur haft þær afleiðingar að formaður KSÍ, Guðni Bergsson, sem og stjórn sambandsins hefur sagt af sér. Þá var Kolbeinn látinn víkja úr íslenska landsliðshópnum á dögum auk þess sem félagið hans, IFK Gautaborg, hefur sent hann í ótímabundið leyfi.
Hörður varpar síðan nýju ljósi á smáatriði málsins og greinilegt er að hann telur illa vegið að skjólstæðingi sínum:
Konan sem steig fram, og hefur farið mikinn í fjölmiðlum, lýsti því svo að lögmaður á vegum KSÍ hafi haft samband við hana og boðað hana til fundar með meðlimum stjórnar KSÍ til að ganga frá „þagnarskyldusamningi“. Vakti þetta mikla athygli enda án nokkurs vafa fréttnæmt ef einhver á vegum sambandsins hefði gegnt þessu hlutverki. Síðar kom fram hjá umræddri konu að undirritaður hafi að líkindum verið sá lögmaður sem í hlut átti. Í þessari frásögn er hins vegar ekki eitt sannleikskorn. Undirritaður átti aldrei í samskiptum við konuna, var ekki að vinna fyrir KSÍ í þessu máli, boðaði ekki til fundar með stjórnarmanni KSÍ og bauð henni ekki á nokkrum tímapunkti „þagnarskyldusamning“. Þessi framsetning var hins vegar óneitanlega meira fréttaefni en sannleikurinn.
Hann rifjar síðan upp að Kolbeinn sendi frá sér yfirlýsingu í vikunni, í tilefni af umfjöllun konunnar, „sem er að öllu leyti sannleikanum samkvæm“ að sögn Harðar:
Umrædd kona, og vinkona hennar, lögðu fram kæru til lögreglu vegna ætlaðrar háttsemi Kolbeins á skemmtistað. Kolbeinn tók þá kæru alvarlega, eðli málsins samkvæmt, og leitaði aðstoðar undirritaðs. Minni hans og upplifun af atvikum þetta kvöld var talsvert önnur en kvennanna tveggja. Hann sýndi hins vegar ábyrgð og átti fund með konunum þar sem þær lýstu sinni upplifun. Hann sýndi því skilning og baðst innilegrar afsökunar á sínum þætti í málinu. Þá varð hann við öllum kröfum kvennanna um greiðslur og málinu var lokað í sátt og samlyndi. Lögreglan felldi málin tvö niður í kjölfarið.
Rúmum fjórum árum síðar segir Hörður Felix að skjólstæðingur hans standi fram fyrir því að vera útskúfaður í samfélaginu. Hann segir þá ákvörðun stjórnar KSÍ að grípa fram fyrir hendur landsliðsþjálfaranna og banna þeim að velja Kolbein fordæmalausa.
Á sama tíma er Kolbeinn í sínu besta formi, eftir margra ára erfið meiðsli, og var kominn hingað til lands til að leggja sitt af mörkum. Ákvörðunin hefur sem fyrr segir vakið athygli víða um heim og Kolbeinn, sem er atvinnumaður í knattspyrnu, stendur frammi fyrir því að missa hugsanlega lífsviðurværi sitt.
Er þetta raunverulega það þjóðfélag sem við viljum lifa í? Er það rétt og eðlilegt að einstaklingar séu fordæmdir og útskúfaðir með þessum hætti, án dóms og laga? Átti Kolbeinn að bregðast öðruvísi við á sínum tíma eða er það einfaldlega svo að ferill knattspyrnumanna sé á enda við hvers kyns hugsanlegar misfellur eða ásakanir? Það er mat undirritaðs að þessi ákvörðun stjórnar KSÍ hafi verið einstaklega misráðin en eflaust hefur sú geðshræring sem einkennt hefur alla umræðu í þjóðfélaginu undanfarna daga haft þar mikil áhrif. Jafn þarft og sjálfsagt og málefnið er þá verður að gæta þess að jafnt umræða sem þær ákvarðanir sem teknar eru, og varða mikilsverð réttindi einstaklinga, séu teknar faglega og af yfirvegun.