Það vakti athygli margra landsmanna að sjá Rúnar Alex Rúnarsson í byrjunarliði Íslands í leiknum við Rúmeníu sem fram fer í kvöld. Hannes Þór Halldórsson hefur eignað sér stöðu markvarðar í liðinu með frábærum frammistöðum undanfarin ár. Eiður Smári Guðjohnsen, aðstoðarlandsliðsþjálfari Íslands, var spurður út í það í viðtali við RÚV fyrir leik hvort að Hannes væri sár með valið.
,,Að sjálfsögðu. Það hefði verið skrýtið ef hann hefði ekki verið það,“ sagði Eiður Smári. ,,Það sýnir bara að hann er með fullan huga við þetta ennþá. Hann sýnir ennþá sinn metnað og má alveg líta á sjálfan sig sem besta markmann í heimi,“ bætti hann við.
Eiður Smári, sem er goðsögn á meðal íslensks knattspyrnuáhugafólks, getur sett sig í spor Hannesar.
,,Ég hef nú lent í því sem leikmaður líka að þjálfarar taki sínar ákvarðanir og maður fá vera fúll, maður má vera sár, maður má vera reiður. En þegar hann kemur inn á völlinn þá þarf hann líka að sýna sinn þroska, sína reynslu við að styðja við bakið á þeim sem eru að spila því þeir eru margir hverjir að spila sinn fyrsta leik.“
Leikur Íslands og Rúmeníu hefst klukkan 18:45.