fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Faðir sem var nafnlaus opinberar sig og dætur sínar með málaferlum gegn Stundinni – „Báru föður sinn ítrekað þeim sökum að hafa brotið á sér“

Erla Hlynsdóttir
Föstudaginn 9. apríl 2021 10:17

Mynd/Samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aðalmeðferð í meiðyrðamáli Björns Matthíassonar hagfræðings gegn öðrum ritstjóra Stundarinnar og útgáfufélagi Stundarinnar vegna umfjöllunar um barnaníð hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur rúmlega níu í morgun.

Í umfjölluninni var rætt nafnlaust við tvær systur sem sögðu að faðir þeirra hefði misnotað þær sem börn. Faðirinn var ekki nafngreindur en fram kom að hann hefði verið sérfræðingur í ráðuneyti „með fína háskólagráðu frá Bandaríkjunum.“

Þá sagði í blaðinu að gögn sýndu að frásagnir af misnotkun hafi borist yfirvöldum margoft. Mál þeirra hafi aldrei verið meðhöndlað sem barnaverndarmál og að þær hafi verið þvingaðar af sýslumanni til að umgangast föður sinn. Upplegg umfjöllunarinnar var hvernig kerfið hefði brugðist systrunum þegar þær voru börn.

Í blaðinu birtust ennfremur myndir af systrunum á barnsaldri þar sem andlit þeirra hafði verið „blörrað“ og brot úr dagbókarfærslu þar sem önnur þeirra hafði níu ára skrifað að faðir sinn hefði misnotað hana þegar hún var yngri.

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, annar ritstjóri Stundarinnar og höfundur greinarinnar, skrifaði um málið á Facebook í gærkvöldi þar sem sagði:

„Í fyrramálið þarf ég að fara fyrir dóm vegna starfa minna sem blaðamaður og ritstjóri. Þar mun ég mæta manni sem tilkynnti mér á afmælisdaginn að hann myndi stefna mér fyrir umfjöllun sem ég vann árið 2018. Tveimur árum síðar barst mér fjárkrafa þar sem mér var gert að greiða 5 milljónir króna innan sjö daga, ellegar yrði ég dregin fyrir dómstóla. Af því að dætur mannsins fengu rödd og rými til að tjá sína upplifun af því hvernig kerfið brást þeim í barnæsku, þegar þær báru föður sinn ítrekað þeim sökum að hafa brotið á sér og báðust undan því að þurfa að umgangast hann, án þess að á þær væri hlustað. Á morgun reynir enn á ný á hvort á þær verði hlustað, því þótt faðir þeirra hafi ekki ákveðið að stefna þeim líka þurfa þær engu að síður að mæta honum fyrir dómi og gefa þar skýrslu. Ég get ekki ímyndað mér hvernig það er að vera í þeirri stöðu, auk þess sem faðir þeirra hefur með þessu svipt þær valdinu til að velja sjálfar hvort þær stígi fram undir nafni og mynd til að segja sögu sína. Þær völdu að vera nafnlausar, meðal annars til að hlífa fjölskyldunni en einnig vegna þess hversu erfitt skref það er stíga að standa berskjaldaður frammi fyrir alþjóð með svo viðkvæm persónuleg málefni, en með því að draga mig fyrir dóm opinberar maðurinn bæði hver hann er og þær um leið. Mig langar því að biðja um hlýjan hug og góða strauma.“

Umrædd umfjöllun birtist í prentaðri útgáfu Stundarinnar þann 9. nóvember 2018.

Á heimasíðu dómstólanna birtist fullt nafn föðurins sem stefnanda í meiðyrðamálinu og er þinghald í málinu opið.

Björn lauk meistaragráðu í hagfræði frá Yale-háskóla í Bandaríkjunum. Hann hefur meðal annars starfað hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Seðlabanka Íslands, EFTA og fjármálaráðuneytinu, auk þess að kenna við Háskóla Íslands.

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí