fbpx
Laugardagur 04.maí 2024
Fréttir

Orðið á götunni: Lögbrot Lilju vel tímasett en verður til vandræða

Heimir Hannesson
Föstudaginn 5. mars 2021 21:49

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óhætt er að segja að Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, átti ekki beysinn dag. Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði kröfu ráðherrans um að úrskurður kærunefndar jafnréttismála vegna ráðningar ráðuneytisstjórans Páls Magnússonar yrði ógiltur. Páll Magnússon var lengi virkur í starfi Framsóknarflokksins og meðal annars aðstoðarmaður ráðherra flokksins. Úrskurðurinn er þvert á móti sagður vel ígrundaður og stendur því sú staðreynd að Lilja braut jafnréttislög er hún hampaði flokksbróður sínum við ráðningu ráðuneytisstjóra í mennta- og menningarmálaráðuneytið. Í stuttu máli átti krafa Lilju enga lagalega stoð.

Hvort málskot Lilju til héraðsdóms hafi átt sér pólitíska stoð er svo allt önnur spurning. Þeirri spurningu var svo svarað með viðbrögðum Lilju við dómnum í dag: Áfrýjun til Landsréttar.

Ljóst er, og óumdeilt, að dómur fyrir brot á jafnréttislögum yrði afsagnarsök í flestum þeim ríkjum sem Íslendingar bera sig jafnan saman við. Í Gettu betur á RUV í kvöld var til dæmis spurt um örlög Mónu Sahlin í Svíþjóð. Móna neyddist þá til að segja af sér vegna þess að hún hafði straujað greiðslukort ríkissjóðs fyrir matvælum. Á meðal þess sem hún keypti á kostnað skattgreiðenda var Toblerone stykki, sem blaðamenn Expressen nýttu til að nefna skandalinn „Toblerone-málið“ í sænsku pressunni.

Afsögn Mónu hefur oft skotið upp kolli sínum í umræðum sem fylgja hneykslismálum hér á land. Óhætt er að fullyrða að talsvert meira virðist þurfa að koma til hér á landi áður en íslenskur ráðherra segir af sér en í samanburðarhæfum ríkjum.

Hvað sem líður sænskri stjórnmálamenningu, gildir hún ekki hér á landi. Lilja hefur þetta kjörtímabil komið vel fyrir. Á fyrri hluta kjörtímabilsins sem nú líður undir lok þurfti Lilja að sitja undir fordæmalausu tali samstarfsmanna sinn á þingi. „Hjólum í helvítis tíkina,“ gaspraði Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra um samflokkskonu sína fyrrverandi. Lilja svaraði síðar fyrir sig og sagði ummælin lýsa „vanmætti, ótta og úreltum viðhorfum.“

Síðar á kjörtímabilinu kom hún veigamiklu frumvarpi um breytingar á námslánakerfinu í gegn. Eitthvað sem margir forverar Lilju höfðu reynt, en fáum tekist.

Lilja sogaðist inn í pólitíkina þegar Sigmundur Davíð, þáverandi formaður Framsóknarflokksins gerði hana að utanríkisráðherra utan þings árið 2016. Lilja komst inn á þing síðar það sama ár í kosningunum 2016. Hún er nú varaformaður Framsóknarflokksins.

Sama hversu óþægilegt dómurinn yfir stjórnarathöfnum Lilju kann að þykja nú er viðbúið að hann muni engar pólitískar afleiðingar hafa.

Af viðbrögðum Lilju við dómnum í dag að ráða er ljóst að hennar afstaða verður að dóminum hefur verið áfrýjað og endanleg niðurstaða í málinu því ekki ljós. Um 200 dagar eru nú til kosninga og afar ólíklegt að niðurstaða í málinu hjá Landsrétti liggi fyrir innan þess tíma. Málið verður því ekki afgreitt af pólitíkinni fyrr en eftir næstu kosningar. Fjögurra ára kjörtímabil er 208 vikna langt, og vika langur tími í pólitík.

Engu að síður er málið sagt óþægilegt innan ríkisstjórnarinnar, einna helst gagnvart Vinstri grænum sem hafa einsett sér að taka jafnréttismálin föstum tökum á þessu kjörtímabili. Hagsmunir VG af því að klára kjörtímabilið með sæmd, skandalalaust, eru þó sagðir trompa hverja þá hagsmuni sem VG gæti haft af því að rugga bátnum á þessum loka metrum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Vilhjálmur spyr hvort ríkið ætli að láta Harald komast upp með að hafa gefið starfsmönnum hundruði milljóna í heimildaleysi

Vilhjálmur spyr hvort ríkið ætli að láta Harald komast upp með að hafa gefið starfsmönnum hundruði milljóna í heimildaleysi
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Drengurinn á Nýbýlavegi lést vegna köfnunar

Drengurinn á Nýbýlavegi lést vegna köfnunar
Fréttir
Í gær

Stórfurðulegt skuldamál – Segjast hafa lánað konu í Hafnarfirði tugi milljóna samkvæmt munnlegu samkomulagi

Stórfurðulegt skuldamál – Segjast hafa lánað konu í Hafnarfirði tugi milljóna samkvæmt munnlegu samkomulagi
Fréttir
Í gær

Theodór: Átakanlegt að horfa á lítil börn fá kíghósta – „Eiginlega bara hósta þangað til þau blána og missa meðvitund“ 

Theodór: Átakanlegt að horfa á lítil börn fá kíghósta – „Eiginlega bara hósta þangað til þau blána og missa meðvitund“ 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bandaríkin sendu Úkraínu nýtt vopn með mikilli leynd

Bandaríkin sendu Úkraínu nýtt vopn með mikilli leynd
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sérfræðingur segir Donald Trump sýna merki um elliglöp

Sérfræðingur segir Donald Trump sýna merki um elliglöp