Sheffield United, tók á móti Newcastle United í 18. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld. Leikurinn endaði með 1-0 sigri Sheffield United, þetta er fyrsti sigur liðsins á tímabilinu. Leikið var á Bramall Lane í Sheffield.
Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik en hlutirnir tóku stefnu til hins verra fyrir Newcastle United, undir lok hálfleiksins þegar Ryan Fraser fékk að líta tvö gul spjöld og þar með rautt spjald á þremur mínútum. Newcastle þurfti því að leika manni færri.
Fyrsta og eina mark leiksins kom á 72. mínútu. Dæmd var hendi, innan teigs, á Federico Fernandez, varnarmann Newcastle og þar með vítaspyrna fyrir Sheffield. Billy Sharp, tók spyrnuna og skoraði af öryggi framhjá Karl Darlow í marki Newcastle.
Fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum og fyrsti sigur Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili, staðreynd. Liðið er í neðsta sæti deildarinnar með 5 stig.
Það hefur gengið erfiðlega hjá Newcastle United að undanförnu. Liðið hefur ekki unnið leik í síðustu sex leikjum sínum og hefur aðeins náð í 2 stig af 18 mögulegum. Newcastle er eftir leik kvöldsins í 15. sæti deildarinnar með 19 stig.
Sheffield United 1 – 0 Newcastle United
1-0 Billy Sharp (’73, víti)